Að sögn Guðmundar Magnasonar, framkvæmdastjóra netverslunarinnar Heimkaupa, er sú nýjung að leyfa kaupendum að sjá síðasta söludag matvæla og veita þeim 50% afslátt þegar varan nálgast síðasta söludag meðal annars gerð til að forðast matarsóun.
Heimkaup komu inn á matvörumarkaðinn í fyrsta sinn nú fyrir skömmu og kaupir fyrirtækið alla erlenda matvöru frá einum stað í Bretlandi. Innlenda vöru kaupir það frá innlendum framleiðendum. „Kaupendur geta líka valið nákvæma þyngd á kjötvörunni sem þeir kaupa. Þetta er nýjung sem hefur ekki verið í boði, hvorki hér heima né erlendis,“ segir Guðmundur.
Hann segir að nú þegar matvaran hefur bæst í hillur verslunarinnar bjóði Heimkaup fjórum sinnum fleiri vörunúmer en hefðbundinn stórmarkaður. „Við bjóðum til dæmis 250 tegundir í vöruflokknum te og kaffi. Það er töluvert meira en aðrar verslanir geta státað af.“ Fyrirtækið nái til um 80% þjóðarinnar í heimsendingum samdægurs og það fer með 300 sendingar að jafnaði á dag. 16