fréttaskýring
Guðrún Erlingsdóttir
ge@mbl.is
Árið 2018 höfðu mislingatilfelli ekki verið fleiri í Evrópu í 20 ár. Samkvæmt frétt á vefsíðu Guardian frá 21. desember sem byggist á skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, er reiknað með að mislingasmit hafi verið rúm 60.000 árið 2018 en það er meira en tvöfalt fleiri tilfelli en greindust árið 2017. Dauðsföll af völdum mislinga 2018 voru helmingi fleiri en 2017 eða 72. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að í kjölfar stríðsátakanna í Úkraínu hafi þátttaka í bólsetningum þar í landi dottið niður og mislingar blossað upp. Dánartala vegna mislinga sé svipuð og verið hefur, einn af hverjum 1.000 sem sýkist. Þórólfur segir að Landlæknisembættið birti reglulega fréttir af útbreiðslu mislinga.
„Við erum enn sem komið er í góðum málum og höfum ekki orðið vör við mislinga hér á landi nema í einu og einu tilfelli sem upp koma vegna tengsla við útlönd. Við erum með ýmsar aðgerðir í gangi til þess að auka hlutfall bólusetninga, m.a. með meiri skilvirkni, bættri skráningu, betra innköllunarkerfi og svo höfum við leitað nýrra leiða í fræðslu um nauðsyn bólusetninga. Árangur úr þessum aðgerðum liggur vonandi fyrir fljótlega,“ segir Þórólfur og bendir á að þátttaka í bólusetningum gegn mislingum á Íslandi sé undir væntingum heilbrigðisyfirvalda sem gjarnan hefðu viljað sjá hærri bólusetningatölur sérstaklega í kringum 18 mánaða aldurinn.
Áróður gegn bólusetningum
Þórólfur segir að í Rúmeníu, Ítalíu og Grikklandi hafi hópar fólks ekki viljað láta bólusetja börn sín. Hann segir rannsóknir staðfesta að þegar hlutfall bólusettra minnki þá gjósi upp mislingafaraldrar.„Það sést um leið þegar bólusetningum fækkar enda koma 90% mislingatilfella upp í óbólusettum einstaklingum. Það er ekki spurning um að bólsetningin verndar í langflestum tilfellum,“ segir Þórólfur.
Í grein Guardian kemur fram að í Bandaríkjunum, Póllandi, Frakklandi og Ítalíu hafi áróður gegn bólusetningum barna aukist og í kjölfarið hafi mislingatilfellum fjölgað. Vegna færri bólusetninga í Frakklandi 2010 hafi mislingar aukist þar jafnt og þétt. Eftir fækkun bólusetninga á Ítalíu 2014 hafi mislingatilfellum fjölgað úr nokkrum á mánuði í hundrað. Í Rúmeníu fækkaði bólusetningum um 90% árið 2014 og 2017 fóru mislingatilfelli yfir 1.000 á mánuði í stað eins til tveggja.
Flest smit á Ítalíu í október
Í samantekt Evrópsku sóttvarnarmiðstöðvarinnar ECDC kemur fram að af 29 löndum sem sendu inn upplýsingar um mislingasmit í október hafi 279 smit verið tilkynnt í 15 löndum. Ítalía, Frakkland og Rúmenía voru með flest smitin. Ítalía með 75 Frakkland með 68 og Rúmenía 54. Mesta fækkun mislingasmita milli mánaða var í Slóvakíu, í október var tilkynnt um 16 tilfelli á móti 87 í ágúst og í Þýskalandi var tilkynnt um 13 smit í stað 29 frá því í ágúst.Pólland, Slóvakía og Bretland tilkynntu um 16 smit í október.
Frá nóvember 2017 til október 2018 var tilkynnt um eitt mislingasmit á Íslandi sem er það lægsta í Evrópu og tvö í Litháen.
Síðasta smitið á Íslandi var tilkynnt í nóvember 2017.