Víkingur Heiðar „Hér fer mikið vandaverk, er virðist þó hafa tekizt af furðumikilli smekkvísi gagnvart jafnt formrænni heildarsýn sem „portrett“næmi fyrir gríðarlegri fjölbreytni galdramannsins frá Eisenach.“
Víkingur Heiðar „Hér fer mikið vandaverk, er virðist þó hafa tekizt af furðumikilli smekkvísi gagnvart jafnt formrænni heildarsýn sem „portrett“næmi fyrir gríðarlegri fjölbreytni galdramannsins frá Eisenach.“ — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
J. S. Bach: BWV 902, 734*, 855, 528*, 850, 659*, 847, 54*, 989, 83, 798, 1006*, 855a, 801, 786, 974*, 639 og 904 (* í umritun Kempffs, Stradals, Busonis, Víkings, Rakhmaninoffs, Silotis og Bachs (á Óbókonserti Marcellos). Víkingur Heiðar Ólafsson píanó.

J. S. Bach: BWV 902, 734*, 855, 528*, 850, 659*, 847, 54*, 989, 83, 798, 1006*, 855a, 801, 786, 974*, 639 og 904 (* í umritun Kempffs, Stradals, Busonis, Víkings, Rakhmaninoffs, Silotis og Bachs (á Óbókonserti Marcellos). Víkingur Heiðar Ólafsson píanó. Upptökur: GENUIN recording group, Hörpu 1.-4.4. 2018. Lengd: 1:17:26. Deutsche Grammophon Gesellschaft, 483 5022.

Á tímum þegar varanleg gæði hafa þokað fyrir stundarvinsældum, oftar en ekki út frá sjónarmiðum arðsemi og hagræðingar, sbr. lykilorðið menningarhagstjórn („cultural management“) er byggjast á meintum mælanleika fjölda neytenda þar sem árangurinn er síðan metinn í beinhörðum peningum, er ekki nema von þótt spurt sé hvað 300 ára gamlar tónrænar fornleifar séu að vilja upp á nútímadekk. Enda harla ólíklegar til að örva efnahag og atvinnusköpun. Hvað þá að jafna kynjamisrétti eða draga úr hnattrænni hlýnun – svo tvö núvæg dæmi séu tekin af handahófi.

En málið er ekki alveg svona einfalt. Því þeir sem til þekkja (eða vilja það) vita vel að öflun viðmiðunar skiptir öllu í valinu á milli kjarna og hismis. Og þar stendur tónlist Johann Sebastians Bachs enn þann dag í dag upp úr flestu öðru er mannsandinn hefur skilið eftir á nótum, allt frá fyrstu varðveittu frumraunum frá því fyrir 1200 árum. Jafnt að listfengi, lærdómi, andagift sem laufléttum gáska – og líklega af meiri fjölbreytni en hjá nokkru öðru tónskáldi fyrr og síðar.

Það er því sízt af léttúð tekið að blanda geði við ótal fyrri sem seinni slaghörpumeistara, þegar viðfangsefnið býður upp á samanburð í túlkun á hljómborðsverkum Bachs – einhverri miskunnarlausustu mælistiku á músíkalska ,aðild og rétt‘ hvers og eins sem um getur, hvort heldur að tæknifærni sem inntakstjáningu.

Að ungur píanisti hér nyrzt á hjara skuli hafa þorað í þá þraut eftir aðeins fimmtán ára feril er í sjálfu sér nógu eftirtektarvert. Öllu eftirtektarverðari er þó hinn heyranlegi árangur. Því í fljótu bragði (með viðeigandi fyrirvara um hvað hlustanda kann síðan að finnast eftir 3-4 ár) fær maður ekki betur heyrt en að til hafi tekizt framar vonum.

Fingrafimur brilljans er flugmælskur og stálöruggur þar sem tilefni gefast, en syngjandi legató einnig á sínum stað (stundum m.a.s. samtímis við hitt á milli radda) og pólýfónískur skýrleiki oftast eins og bezt verður á kosið.

Þá má víða heyra allt að því „rómantísk“ styrkbrigði í krafti nútímahljóðfærisins, er maður freistast til að halda að Bach hefði sjálfur varla fúlsað við, hefði „gravicembalo“ Cristoforis (sem Bach prófaði í Potsdam í heimsókninni til Friðriks mikla 1744) verið ögn lengra komið í þróun.

En þrátt fyrir rómantískan örblæ á köflum virðist nálgun Víkings jafnframt talsvert mótuð af upprunahyggju síðari áratuga. T.a.m. með tíðari staccati en fyrri tíma píanóljón áttu að venjast – jafnvel þótt undirr. hljóti að fagna að D-dúr-fúgan úr WTC slapp blessunarlega við áður oft heyrða tvípunktun á 2.-4. slagi í frönskum forleiksstíl, er tryggir heilbrigða sveiflu. (Ekki sízt þeim er nutu mest dillandi meðferðar Swingle Singers á 7. áratug!)

Niðurröðun afar ólíkra verka, þ.m.t. umritana liðinna virtúósa á við Busoni og Rakhmaninoff, Bachs á Óbókonsert Feneyjameistarans Marcellos – og Víkings sjálfs á altaríunni úr kantötunni Wiederstehe doch der Sünde – er kapítuli út af fyrir sig. Hér fer mikið vandaverk, er virðist þó hafa tekizt af furðumikilli smekkvísi gagnvart jafnt formrænni heildarsýn sem „portrett“næmi fyrir gríðarlegri fjölbreytni galdramannsins frá Eisenach.

Upptaka GENUIN-hópsins í Hörpu á vegum DG er afburðaskýr og skilar jafnvel minnstu smáatriðum. Að ekki sé minnzt á einhverja víðustu dýnamík í barokkpíanóleik sem maður man eftir á seinni árum. Hún kórónar því, óhætt að segja, frábæra túlkun, sem gæfi jafnvel orðunefnd Bessastaða verðugt tilefni til fálkunar í fyrirsjáanlegri framtíð.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson