Fokið er nú í flest skjól hjá Víkverja, allavega í hárdeildinni. Svo er mál með vexti að hann ákvað að fara í fyrstu klippingu hins nýja árs.

Fokið er nú í flest skjól hjá Víkverja, allavega í hárdeildinni. Svo er mál með vexti að hann ákvað að fara í fyrstu klippingu hins nýja árs. Sem væri svo sem ekki í frásögur færandi ef Víkverji hefði ekki þóst sjá ögn meira í skallann að klippingu lokinni en hann hefur gert áður.

Hárgreiðslukonan var öll af vilja gerð til þess að tefja ögn lengur gráa fiðringinn hjá Víkverja og bauðst því til þess að setja smá lit þarna í hársvörðinn hjá honum þannig að það bæri ekki eins mikið á skallanum. Víkverji þáði það boð með skömmustulegum þökkum.

Víkverji lítur almennt ekki á sig sem hégómlegan. En þarna var hann tilbúinn til þess að spásséra um bæinn með lit í hársverðinum, allt til þess að halda í þá ímynd að testósterónframleiðsla Víkverja væri ekki hægt og bítandi að fækka hárunum á höfði hans.

Einhverra hluta vegna þykir það víst ferlegt að missa hárið. Svo ferlegt að algengasta ráðið við hárlosi mun vera hreinlega það að raka hárið allt af. Hvers vegna ætti að framlengja kvöl og pínu hársins, sem er hvort eð er á útleið, þegar hægt er að verða sköllóttur enn fyrr? Víkverji er allavega ekki spenntur fyrir þeirri lausn.

Hann er þó meðvitaður um að líklega falla öll vötn til Dýrafjarðar í þessum efnum. Fyrr eða síðar verður hár Víkverja komið á þann stað. Sá dagur er þó ekki kominn enn, vonar Víkverji. Kannski getur hann bara orðið eins og Bruce Willis var, eða Jack Nicholson, með kollvikin út í loft og hárið greitt aftur?

Allt þetta og meira flaug um höfuð Víkverja meðan litnum var makað á. „En svo fer þetta auðvitað bara úr í næstu sturtu!“ sagði hárgreiðslukonan. Það er hári Víkverja til happs að hann ætlar næst í sturtu í febrúar... árið 2020.