Sigríður Ingibjörg Þorgeirsdóttir fæddist 29. júlí 1937. Hún lést 28. desember 2018.

Útför Sigríðar fór fram 8. janúar 2019.

Stella, eins og við kölluðum hana alltaf, giftist föður mínum þegar ég var 12 ára gömul að fengnu samþykki okkar systkina. Við vorum fjögur systkinin, ég langyngst og var einungis 10 ára þegar móðir okkar dó. Það hefur án efa verið mjög erfitt fyrir Stellu að taka þá ákvörðun að giftast ekkjumanni með þetta mörg börn og tvö af þeim inni á heimilinu, 12 og 17 ára. Hún tók að sér þetta stóra verkefni og gerði það með ágætum. Hún og pabbi áttu kveðskapinn sameiginlegan en þau ortu bæði ljóð og samdi hún nokkur ljóð sem Öldutúnsskólakórinn söng en hún var kennari við skólann og var alla tíð mjög vel liðin bæði af nemendum og starfsfólki.

Alltaf var hægt að leita til hennar varðandi aðstoð við námið og var alltaf kallað í Stellu þegar samræmd próf voru á næsta leiti hjá börnum okkar hjóna. Hún tengdist alltaf sveitinni sinni og fór þangað um helgar á vetrum og var þar mestallt sumarið að aðstoða við sveitastörfin en þau systkinin, Bjarni Kiddi, Stella og Sólveig, sáu um búskapinn á Hæringsstöðum eftir að faðir þeirra dó. Börnunum þótti mjög gaman að fara austur og aðstoða við smölun og heyskap og þótti ekki slæmt þegar Stella kom með kveðju frá Bjarna Kidda eftir slíkar ferðir þar sem hann hrósaði börnunum fyrir dugnað og prúðmennsku, hans skoðun var mikils metin hvað þetta varðaði.

Ég veit að Stella var ekki tilbúin að fara svona fljótt og hún stefndi alltaf á að verða nógu hress aftur til þess að komast á Hæringsstaði og eyða síðustu æviárunum sínum þar en það varð því miður ekki.

Ég og mín fjölskylda viljum þakka Stellu fyrir allt því hún var okkur alla tíð mjög góð og eigum við eftir að sakna hennar.

Elsku Stella, hafðu þökk fyrir allt. Þín

Elísabet, Hörður og börn.