Borgarnes Menningar- og safnabær.
Borgarnes Menningar- og safnabær. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tæplega 7% aukning varð á gestafjölda í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi milli áranna 2017 og 2018. Fjölgaði á öllum fagsviðum hússins, en þar eru fimm söfn undir einu þaki. Útlán á bókasafni hafa einnig aukist.

Tæplega 7% aukning varð á gestafjölda í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi milli áranna 2017 og 2018. Fjölgaði á öllum fagsviðum hússins, en þar eru fimm söfn undir einu þaki. Útlán á bókasafni hafa einnig aukist. Safnkennsla var fyrirferðarmikil í starfseminni og komu um 500 nemendur frá skólastofnunum á sýningar og bókasafn.

Í safnahúsinu eru starfrækt byggðasafn, náttúrugripasafn, listasafn, bókasafn og skjalasafn. Verkefnaval tekur mið af þessu og viðfangsefnin eru af ýmsu tagi, allt frá myndlistarsýningum og byggðasýningum til lestrarátaks fyrir börn og útgáfu bókamerkis.

Á nýbyrjuðu ári verða fjölbreyttir viðburðir í Safnahúsinu og er sá fyrsti þeirra í kvöld kl. 19:30 þar sem Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur flytur fyrirlestur um langömmu sína, rithöfundinn vinsæla Guðrúnu Árnadóttur frá Lundi. Í ár eru 73 ár frá því að fyrsta bindi skáldsögunnar Dalalífs eftir Guðrúnu kom út. Alls urðu bindin fimm og var þar komin lengsta íslenska skáldsagan.