Erfðabreytingar Margar spurningar vöknuðu eftir að lífefnafræðingnum He Jiankui tókst að breyta erfðaefni tveggja stúlkubarna til að gera þær ónæmar fyrir smiti af HIV-veirunni.
Erfðabreytingar Margar spurningar vöknuðu eftir að lífefnafræðingnum He Jiankui tókst að breyta erfðaefni tveggja stúlkubarna til að gera þær ónæmar fyrir smiti af HIV-veirunni.
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Deilur geisa nú í fræðasamfélaginu um framtíð erfðabóta á mönnum eftir að kínverska lífefnafræðingnum He Jiankui tókst í nóvember að breyta erfðaefni tveggja stúlkubarna.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Deilur geisa nú í fræðasamfélaginu um framtíð erfðabóta á mönnum eftir að kínverska lífefnafræðingnum He Jiankui tókst í nóvember að breyta erfðaefni tveggja stúlkubarna. Um er að ræða fyrstu erfðabreyttu börn sem fæðst hafa. He Jiankui gerði þessar breytingar á erfðaefni fóstranna til þess að gera börnin ónæm fyrir smiti af völdum HIV-veirunnar. Fylgjendur erfðabreytinga á mönnum líta á tilraunina sem mikilvægt skref og telja að möguleikarnir sem tæknin býður upp á séu óteljandi.

Tilraun He Jiankui byggðist á erfðatækninni Crispr-Cas9, sem var uppgötvuð árið 2013 og hefur þegar haft gríðarleg áhrif á erfðavísindi. Tæknin byggist á að koma ensíminu Cas9 inn í frumur, klippa bút af erfðaefni út og jafnvel koma síðan öðrum bút fyrir í staðinn.

Siðfræðingurinn dr. Blay Whitby, sem hefur sérhæft sig í siðferðilegum álitamálum rannsókna, segir í viðtali við fréttaveituna AFP að sumir erfðabótasinnar séu þegar farnir að undirrita tölvupóstana sína með slagorðum á borð við „Dauðinn er núna valkvæður“ eða „Fyrsta manneskjan sem lifir í 500 ár hefur þegar fæðst“. Hann segist þó ekki alveg svo bjartsýnn sjálfur.

Whitby er ekki sá eini sem hefur efast um að tilraun Hes Jiankuis sé jákvætt skref. Tilraunin olli miklum deilum um siðferðislegar forsendur og afleiðingar strax og tilkynnt var um hana. Gagnrýnendur Hes benda á að breytingar á erfðaefni fóstra geti valdið stökkbreytingum og ýmsum ófyrirséðum hliðarverkunum sem gætu haft alvarleg áhrif á líf barnanna til langtíma.

Tilraunir Hes Jiankuis stóðust ennfremur ekki kínverskar reglugerðir og því hafa stjórnvöld Kína bundið enda á rannsóknarvinnu hans um sinn.

„Glæfralegt og illa hugsað“

Karl Ægir Karlsson, prófessor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, er meðal þeirra sem telja að erfðabreytingar muni óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á daglegt líf í allra nánustu framtíð. „Ég veit ekki hvað gæti stoppað það úr þessu,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið.

Karl lagði þó áherslu á að tilraun Hes Jiankuis hefði verið „glæfraleg“ og í reynd fremur fjölmiðlagjörningur en vísindaleg rannsókn. „Ég myndi segja hana skaðlega því hún upplýsir engan um gagnsemi þessarar tækni og skapar takmarkaða nýja þekkingu en skapar mjög neikvæða umræðu sem er erfitt að leiðrétta,“ sagði Karl.

Að sögn Karls var erfðabreyting Hes framkvæmd á fóstri stúlknanna án þess að tryggt hefði verið að engar hliðarverkanir yrðu af því að fjarlægja þann hluta erfðamengisins sem skráir fyrir prótíni sem gerir frumur móttækilegar fyrir HIV-veirunni. Sá hluti erfðamengisins hafi haft sínu hlutverki að gegna og það að fjarlægja hann gæti haft alvarlegar hliðarverkanir sem nú væri of seint að fyrirbyggja hjá stúlkunum.

Karl sagðist sjálfur hafa gert tæknilega hliðstæðar erfðabreytingar á fiskum en að í þeim tilfellum væri jafnan hægt að ganga úr skugga um að hliðarverkanir væru engar. „Það er auðvitað hreinlega ömurlegt að nota orðið tilraunadýr eða viðfang um lifandi manneskju, en það er samt staðreynd þarna. Fyrir mér er þetta bara tímasóun, jafnvel mannvonska.“