Hringbraut Þungt hljóð er í íbúunum vegna skorts á umferðaröryggi.
Hringbraut Þungt hljóð er í íbúunum vegna skorts á umferðaröryggi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gangbrautarvarsla fyrir skólabörn verður tekin upp á vegum borgarinnar við gangbraut yfir Hringbraut við Meistaravelli.

Gangbrautarvarsla fyrir skólabörn verður tekin upp á vegum borgarinnar við gangbraut yfir Hringbraut við Meistaravelli. Gæslan mun hefjast við upphaf hvers skóladags og er stefnt að því að hún verði fram á vor, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg síðdegis í gær. Slys hafa orðið við umrædd gangbrautarljós hjá Hringbraut og þykir ljóst að þar hafi skort á öryggi gangandi vegfarenda.

Ákveðið hefur verið að boða til samráðsfundar í næstu viku um málið með Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðinni sem er veghaldari Hringbrautar, Samgöngustofu og íbúasamtökum hverfisins ásamt samgönguskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Starfshópur umhverfis- og skipulagssviðs um hraðaminnkandi aðgerðir lagði til í janúar 2017 að hraðamörk verði lækkuð um 10 km/klst. í tveimur áföngum á götum vestan Kringlumýrarbrautar þar sem hraðamörk eru 50 eða 60 km. Auk þess verði svæðum með 30 km hámarkshraða fjölgað og núverandi svæði stækkuð. Einnig var lagt til að gönguleiðir þvert á umferðargötur með 40 eða 50 km hámarkshraða, t.d. á Hringbraut við Framnesveg og Hofsvallagötu, verði upphækkaðar og betur merktar en nú.

Mótmæli í kjölfar slyss

Þrettán ára barn varð fyrir bíl á gatnamótum Hringbrautar og Meistaravalla í gær. Ekkert benti til þess að slysið hefði orðið vegna glæfralegs aksturs. Slysið varð á gangbraut þar sem styðja þarf á hnapp svo gönguljósið verði grænt. Að sögn íbúa hunsa ökumenn oft gönguljósin.

Yfirvöld voru harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum fyrir að öryggi gangandi vegfarenda væri ekki nægilega vel tryggt á þessum stað. Foreldrar barns í Vesturbæjarskóla boðuðu til mótmæla. Hjónin Ólöf Jakobsdóttir og Jóhannes Tryggvason kváðust ætla að standa vakt við gangbrautina. gudni@mbl.is