Netflix hefur alltaf viljað fara varlega þegar kemur að því að birta áhorfstölur. Þar sem fyrirtækið þarf ekki að ganga í augun á auglýsendum með áhorfstölum eru einu tölurnar sem efnisveitan þarf að flagga hve margir áskrifendurnir eru.

Netflix hefur alltaf viljað fara varlega þegar kemur að því að birta áhorfstölur. Þar sem fyrirtækið þarf ekki að ganga í augun á auglýsendum með áhorfstölum eru einu tölurnar sem efnisveitan þarf að flagga hve margir áskrifendurnir eru. En með vaxandi áherslu fyrirtækisins á að framleiða eigið efni er gaman að segja frá þegar áhorfið er gott. Netflix hefur t.d. með glöðu geði upplýst að slegið var nýtt met með kvikmyndinni Bird Box þegar henni var streymt 45 milljón sinnum fyrstu sýningarvikuna.

Er það allgóður skerfur af þeim 130 milljónum sem eru í áskrift hjá fyrirtækinu – sérstaklega þegar haft er í huga að gagnrýnendur voru ekkert sérstaklega hrifnir af myndinni. Stjórnendur Netflix þurftu einmitt á svona smelli að halda til að réttlæta þá stefnu að ráðstafa enn meira fjármagni í kvikmynda- og þáttagerð á árinu 2019.

Bæði áskriftar- og hagnaðartölurnar eru á uppleið en það sem Netflix hefur ekki enn tekist er að gera reksturinn sjálfbæran. Nýi fjármálastjórinn, Spencer Neumann, þarf að taka um það ákvörðun hversu miklar skuldir fyrirtækið getur ráðið við svo það geti haldið áfram að dæla út nýju efni. Jafnvel þó að tekjur aukist um 25% á þessu ári, upp í nærri 20 milljarða dala, reiknar Netflix engu að síður með að vera með neikvætt sjóðstreymi upp á meira en þrjá milljarða dala.

Það þýðir að fyrirtækið þarf að fara bónferð til markaða einmitt þegar vextir eru á uppleið. Í desember hafði álagið á lánum ekki verið hærra í tvö ár. Það gæti bráðum gerst að nettóskuldir Netflix fari upp í sem nemur fjórföldum rekstrarhagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði.

En með vel heppnaða þáttagerð að baki í jólamánuðinum, og þökk sé eindregnum meðmælum Goldman Sachs, hækkaði hlutabréfaverð Netflix um meira en 10% á fyrstu viku ársins svo að lítið vantar upp á að það nái 300 dölum. Markaðsgreinendur Goldman Sachs telja að verðið geti jafnvel farið upp í 400 dali. Það veltur þó á því að sæmilegur taktur verði í fjölgun áskrifenda – sem þýðir að framleiða þarf enn meira efni fyrir alþjóðlegan áhorfendamarkað. Í einni könnun kom í ljós að nærri 60% bandarískra svarenda horfðu þegar á Netflix, en í Frakklandi og Þýskalandi er aðeins þriðjungur heimila í áskrift.

Eigin dagskrárgerð mun í það minnsta hjálpa til að aðgreina Netflix frá keppinautunum. Amazon, Hulu og nýjar efnisveitur Apple og Disney geta ekki komist með tærnar þar sem þátta- og kvikmyndasafn Netflix hefur hælana. Til að halda tölunum uppi ætti Netflix að íhuga að láta það mæta afgangi að framleiða kvikmyndir sem eiga að freista óskarsverðlaunanefndarinnar. Langlíf sjónvarpsþáttaröð laðar að fleiri áskrifendur en átakanleg ný kvikmynd eftir Alfonso Cuarón. Alltént ætti einhver að vera að koma því í kring að hafin verði framleiðsla á Bird Box 2.