„Með aukinni samkeppni í bankaþjónustu og jafnvel með tilkomu erlendra fjármálafyrirtækja þá verður skattaumhverfið að vera sanngjarnt,“ segir Edda um horfurnar í geiranum.
„Með aukinni samkeppni í bankaþjónustu og jafnvel með tilkomu erlendra fjármálafyrirtækja þá verður skattaumhverfið að vera sanngjarnt,“ segir Edda um horfurnar í geiranum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Það fer ekki milli mála að Edda Hermannsdóttir er engin venjuleg kona.

Það fer ekki milli mála að Edda Hermannsdóttir er engin venjuleg kona. Hún er aðeins 32 ára gömul og yngsti stjórnandinn hjá Íslandsbanka, en í upphafi þessa árs tók hún við nýrri deild hjá bankanum þar sem greining, samskiptamál og fræðslustarf sameinast. Í fyrra gaf hún út bók um jafnréttismál og stendur reglulega fyrir fundum um það efni, og í ofanálag stundar hún nám við IESE í Barselóna.

Hverjar eru helstu áskoranirnar

í rekstrinum þessi misserin?

Árið hjá Íslandsbanka hefur verið viðburðaríkt og í upphafi árs tók ég við nýrri deild þar sem við sameinuðum fræðslustarf, greiningarefni og samskiptamál. Okkar verkefni hefur verið að búa til efni og skýrslur sem nýtast viðskiptavinum og öðrum áhugasömum. Traust til fjármálastofnana mælist enn lágt og því er mikilvægt að miðla efni og þekkingu vandlega og jafnframt auka skilning á starfseminni. Bankaþjónusta er að breytast hratt, á þessu ári kynntum við fjölmargar stafrænar lausnir og sjáum mikla aukningu í notkun á appinu svo það er augljóst að hegðun neytenda er að breytast hratt. Aðeins á þessu ári var vöxtur í stafrænni þjónustu yfir 200%. Áskorunin er því að gera bankaviðskiptin einföld en gæta þess að þjónustan sé persónuleg og framúrskarandi.

Hver var síðasti fyrirlesturinn

sem þú sóttir?

Nýlega varð Íslandsbanki hluti af samtökum sem heita Nordic CEOs for sustainable future og var ég að ljúka við vinnulotu með þeim verkefnahópi. Hópurinn samanstendur af stórum fyrirtækjum á Norðurlöndunum eins og SAS, Nokia, Telia, Swedbank, Equinor og fleirum sem vilja vinna saman að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Maður fyllist innblæstri að hlusta á hvernig stórfyrirtæki eru að breyta hugarfari sínu og láta verkin tala þegar kemur að umhverfis- og jafnréttismálum.

Hvaða bók hefur haft mest

áhrif á hvernig þú starfar?

Mér finnst einstaklega gaman að lesa efni eftir Daniel Goleman um tilfinningagreind. Viðfangsefnið er mjög viðeigandi í hröðu atvinnulífi og hvað það er sem skilgreinir góðan leiðtoga og hvaða þættir það eru sem gera hæfa og góða stjórnendur að framúrskarandi stjórnendum. Það er áhugavert að lesa og velta því fyrir sér hvað er meðfætt og hvað er hægt að læra þegar kemur að félagslegri hæfni, samkennd og hvatningu. Það er nokkuð ljóst að hinn grimmi yfirmaður sem stjórnar með látum er á undanhaldi og nútímalegri stjórnunarhættir eru að ryðja sér til rúms þar sem tilfinningagreind er algjört lykilatriði.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég kenndi þrektíma klukkan sex á morgnana undanfarin níu ár en lét af því nýlega. Það hefur alltaf gefið mér mikla orku á annasömum dögum að hreyfa mig þó það sé stutt í hvert skipti. Best finnst mér að fara út að hlaupa og fara í sund. Ég reyni síðan að lyfta af og til þótt það mætti vissulega gerast oftar. Þetta er auðvitað allt til þess gert að geta bakað og borðað kökur með góðri samvisku.

Hver myndi leika þig í kvikmynd

um líf þitt og afrek?

Ég myndi helst vilja fá konu til að leika mig sem hefur það sama áhugamál og ég að efla stöðu kvenna. Í gegnum tíðina hefur mér stundum verið líkt við Reese Witherspoon – það þykir mér vera hrós og ég bíð spennt eftir að sjá þá mynd.

Hvaða kosti og galla sérðu

við rekstrarumhverfið?

Skattar sem bankarnir greiða hér á landi eru mun hærri en hjá bönkum í nágrannalöndum. Þetta skekkir samkeppnina mjög sem er afar óheppilegt þegar bankar hafa aldrei staðið frammi fyrir jafn miklum og hröðum breytingum eins og núna.

Bankar verða til í allt annarri mynd eftir nokkur ár og við erum spennt að taka þátt í að þróa fjártæknilausnir og móta bankaþjónustu framtíðarinnar. En með aukinni samkeppni í bankaþjónustu og jafnvel með tilkomu erlendra fjármálafyrirtækja þá verður skattaumhverfið að vera sanngjarnt. Heilbrigð og öflug fjármálastarfsemi skiptir gríðarlega miklu máli í öllum samfélögum við uppbyggingu fyrirtækja og heimila.

Hvað gerirðu til að fá orku

og innblástur í starfi?

Mér finnst endurnærandi að umgangast skemmtilegt og áhugavert fólk sem er hægt að rökræða við og heyra ólík sjónarhorn. Mikilvægast er auðvitað að hvílast vel svo maður hafi bæði orku í dagleg verkefni ásamt því að hafa tíma til að vinna að nýjum hugmyndum. Sú blanda verður að vera góð.