Ólafur Thorarensen Bjarnason fæddist í Reykjavík 18. apríl 1950. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Blönduóss 13. nóvember 2018.

Foreldrar hans voru Ólafur Bjarni Thorarensen Pálsson sjómaður, f. 6. maí 1920, d. 17. desember 2015, og Jóhanna Áslaug Bergland, f. 20. janúar 1919, d, 12. febrúar 1995.

Systkini Ólafs eru Davíð Ragnar, f. 1954, og sammæðra er Guðmundur Hannes Ólafsson, f. 1942.

Ólafur kvæntist Helgu Hinriksdóttur, f. 12. ágúst 1946 frá Ármótum, geðhjúkrunarfræðingi og ljósmóður. Þau slitu samvistum. Dóttir þeirra er Elísabet, f. 5. nóvember 1977, gift Hilmari Haukssyni. Synir þeirra eru Hilmar Máni og Bjarki Þór. Fyrir átti Helga dótturina Vilborgu Sveinsdóttur, f. 16. maí 1965, gift Kristni Þór Runólfssyni. Börn þeirra eru Emil Þór, Helga Björk og Selma Lind.

Sambýliskona Ólafs er Guðbjörg Haraldsdóttir, f. 27. nóvember 1971. Foreldrar hennar eru Haraldur Ellert Magnússon rafvirkjameistari og Þóra Mínerva Hreiðarsdóttir símadama hjá Eimskip. Dóttir Guðbjargar er Alexandra Ósk, f. 29. október 1990. Dætur hennar eru Ylfa Fanndís og Arney Nadía.

Útför Ólafs Thorarensen Bjarnasonar fór fram frá Hólaneskirkju 27. nóvember 2018 í kyrrþey að hans ósk.

Nú er hann Óli, vinur minn, Th. Bjarnason kominn til heimkynna sinna í ljósinu eilífa, eftir snarpa baráttu við krabbamein.

Við Óli kynntumst einhvern tíma í kringum árið 1993 þegar hann gekk í stúkuna mína í Samfrímúrarareglunni, sem nú heitir Alþjóðleg frímúrararegla karla og kvenna, Le Droit Humain. Þar fann hann sig vel og starfaði þar ötullega. Í gegnum samstarf okkar þar og setu okkar saman í bænahring myndaðist sterk og náin vinátta sem hefur alla tíð haldið. Lífið hagaði því þó þannig að Óli hætti í reglunni, flutti í annað byggðarlag og samband okkar á milli var lítið sem ekkert til margra ára. Vináttan hvarf samt aldrei og með tilkomu Fésbókarinnar áttum við góð samskipti í nokkur ár, sérstaklega í tengslum við fyrirbænir hans.

Óli var bænheitur maður og sterkur heilari sem helgaði sig fyrirbænum og andlegri miðlun stóran hluta lífs síns. Hann sá og skildi hlutina andlegum augum og gerði allt sem hann gat til að aðstoða þá sem áttu við veikindi og erfiðleika að stríða. Mér persónulega hjálpaði hann oftsinnis á margvíslegan hátt og alltaf var gott að leita til hans ef á bjátaði. Fyrir það er ég honum þakklát. Óli gerði alltaf lítið úr sinni hjálp en ég er nokkuð viss um að bænalíf hans og aðstoð við aðra skipti hann meginmáli í lífinu.

Ég gleðst í hjarta mínu yfir að við Óli skyldum hittast í apríl síðastliðnum og eiga saman góða stund í nýju íbúðinni minni, sem ég veit að hann fyllti af ljósi og kærleika. Það var líka gott að finna að vináttan var á sínum stað og tengsl okkar náin þrátt fyrir að við hefðum ekki hist í mörg ár. Hann var um það bil að ljúka dvöl sinni á Reykjalundi og var nokkuð sáttur við líðan sína og heilsufar og hlakkaði til að fara heim á Skagaströnd til Guggu sinnar og hundanna. Um mánuði síðar kom í ljós að meira mein var í líkama hans en vitað var. Aldrei varð af því að við hittumst í haust eins og hann hafði ráðgert þegar hann átti aftur að fá pláss aftur á Reykjalundi. Í staðinn fór hann á sína síðustu för til ljóssins föður – ferðina sem við munum öll fara við ævilok.

Dýrmætur vinur er horfinn af þessu sviði en fyrirbænir hans halda áfram þegar við sendum honum hljóð skilaboð og beiðni um hjálp. Hafðu hjartans þökk fyrir allar gjafir þínar og óeigingjarna þjónustu í þágu ljóssins. Minning þín lifir í hjarta mér.

Jóhanna E.

Sveinsdóttir.