Ferdinand Hansen
Ferdinand Hansen
Eftir Ferdinand Hansen: "Yfirvöld gera ráð fyrir að salernið, sólarsellan, rúmdýnan, fataskáparnir og eldhúsborðið losi einnig 230 grömm af CO 2 á hvern ekinn kílómetra."

Í tíu ár lögðum við hjónin reglulega fyrir af laununum okkar til að láta drauminn rætast um að eignast góðan og vel útbúinn ferðabíl fyrir íslenskar aðstæður.

Ef ég hefði fengið allt það sem við lögðum fyrir á þessum árum í einu launaumslagi þá hefði staðið kr. 33.000.000 efst á launaseðlinum.

Eftir að hafa gert skattayfirvöldum skil með ca. 38% eða 12.500.000 kr. greiðslu í skatt af þessari upphæð hefði ég haft milli handanna 20.500.000 til að leggja inn í bankann.

Þegar búið var að safna og safna í öll þessi ár var loksins komið að því að festa kaup á bílnum sem gekk eins og í sögu.

Við pöntuðum bílinn á netinu og völdum í hann búnað sem þarf að prýða góðan ferðabíl: eldavél, salerni, sólarsellu, rúmdýnur, eldhúsinnréttingu, fataskápa, skúffur, eldhúsborð og fl.

Merzedes Bens Sprinter, þýskur eðalvagn, kostaði kr. 4.803.423 frá verksmiðju og síðan kostuðu innréttingar og vinna við ísetningu og frágang kr. 4.890.367 og kr. 450.000 kostaði að flytja bílinn til landsins, samtals 10.143.790 íslenskar krónur.

Þar sem vélin í slíkum eðalvagni losar 230 grömm af CO 2 pr. km í blönduðum akstri leggst á 60% vörugjald af verði bifreiðarinnar, eða alls 6.134.453 kr.

Ósanngjarnt eða ekki ósanngjarnt

Yfirvöld virðast gera ráð fyrir að eldavélin, salernið, sólarsellan, rúmdýnan, eldhúsinnréttingin, fataskáparnir, skúffurnar og eldhúsborðið losi einnig 230 grömm af CO 2 á hvern ekinn kílómetra. Að minnsta kosti er einnig reiknað 60% vörugjald á þessa hluti sem einir og sér bera lítið eða ekkert vörugjald við hefðbundinn innflutning til landsins.

Um helmingur af sex milljóna króna vörugaldinu er því innheimtur vegna hús- og ferðabúnaðar sem hefur ekkert með mengun vélarinnar að gera.

Þessu til viðbótar kemur svo virðisaukaskattur, kr. 3.927.401, sem að sjálfsögðu leggst einnig ofan á 60% vörugjaldið af húsbúnaðinum.

Draumabíllinn kostaði rúmlega kr. 10.000.000 í innkaupum erlendis. Af þeim tekjum sem við þurftum að afla til að láta draum um ferðabíl rætast höfum við hjónin því þurft að greiða eins og upptalningin hér að ofan sýnir, samtals tæplega 23.000.000 kr. beint í ríkissjóð.

Greiðir sá sem mengar?

Ef sendibílstjóri hefði keypt sambærilega bifreið, óinnréttaða að sjálfögðu, þá hefði hann einungis þurft að greiða 13% vörugjald þrátt fyrir sömu losun á CO 2 .

Sendibílum er ekið mikið á hverju ári, varlega áætlað um 50.000 km. Sérútbúnum ferðabíl til einkanota á Íslandi er á hinn bóginn varla ekið meira en 5.000 km að meðaltali á ári.

Á þeim forsendum skilur sá sem þarf að greiða 60% vörugjald eftir sig 1.150 kg af CO 2 á ári en sá sem þarf aðeins að greiða 13% skilur eftir sig 11.500 kg af CO 2 . Mjög svo sanngjarnt ekki satt?

Enn höfum við hjónin eitthvað að hlakka til!

Það var mikil tilhlökkun alla þá tíu mánuði sem við þurftum að bíða eftir nýja bílnum frá því við pöntuðum og þar til hann stóð hér á götunni tilbúinn til notkunar.

Nú sitjum við hjónin og bíðum eftir sumrinu með mikilli tillhökkun, ekki síst vegna þeirrar boðunar yfirvalda að brátt fáum við að greiða og greiða, meira og meira, aftur og aftur, skatta og skyldur í formi eldsneytisgjalda, þungaskatts og nú síðast vegatolla. Við getum líka glaðst yfir því að hafa lagt eitthvað til samfélagsins því það er nokkuð víst að ferðabíllinn okkar er hlutfallsega miklu arðbærari fjárfesting fyrir ríkissjóð en sjálf Landsvirkjun.

Þegar stjórnvöld ákveða reglulega að bæta við gjöld, skatta og tolla í ýmsum myndum verður æ minna eftir af umsömdum launum eins og þetta dæmi sýnir og þarf þá engan að undra þó almenningur þurfi jafn reglulega að sækja sér launahækkanir.

Höfundur er gæða- og öryggisstjóri. ferdinand@hansen.is