[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Framkvæmdastjórar Smáralindar og Kringlunnar segja verslunarmenn áhyggjufulla út af mögulegum verkföllum með vorinu. Undirbúningur vegna verkfalla er þó skammt á veg komin.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Framkvæmdastjórar Smáralindar og Kringlunnar segja verslunarmenn áhyggjufulla út af mögulegum verkföllum með vorinu. Undirbúningur vegna verkfalla er þó skammt á veg komin.

Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, segir fyrirtækið ekki hafa gert áætlanir vegna mögulegra verkfalla. Menn séu áhyggjufullir út af stöðunni.

„Þeir hafa áhyggjur út af þeim kröfum sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram. Til dæmis eru aðilar í veitingageiranum mjög uggandi yfir þessum kröfum vegna þess að rekstrarumhverfið er nú erfitt út af launakostnaði,“ segir Sturla Gunnar um áhrif launahækkana á verslun.

Spurður um möguleg áhrif á verslunarrekstur, t.d. fataverslanir, segir Sturla það áhyggjuefni í sjálfu sér. Það verði þungt fyrir mörg fyrirtæki að taka á sig þær launahækkanir sem rætt er um.

„Ég hef trú á því að hækkun á launum muni skila sér í hækkun á útsöluverði vörunnar,“ segir Sturla Gunnar sem kveðst hafa heyrt það frá kaupmönnum að „ef það verða miklar launahækkanir muni menn ýta þeim út í vöruverðið“.

Tryggi lágmarksþjónusta

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir fyrirtækin almennt ekki hafa gert undirbúningsáætlanir vegna mögulegra verkfalla.

„Við höfum ekki gripið til þess enn en ölum þá von í brjósti að mönnum sjáist fyrir í þessu efni. Við höfum ekki sett varúðarplan í gang. Það er enda ekki margt í hendi í þeim efnum. Auðvitað geta eigendur verslana, og þeir sem tilheyra stéttarfélögum sem ekki eru í verkföllum hverju sinni, haldið einhverri lágmarksþjónustu og afgreiðslu.“

– Hvernig er hljóðið í mönnum?

„Menn eru mjög áhyggjufullir yfir stöðunni. Verslanir standa frammi fyrir því að allur kostnaður hækkar meðan framlegð verslunar stendur í stað. Það er því ekki úr miklu að moða hvað það varðar.

Vöruverð hefur verið að lækka á Íslandi með stjórnvaldsaðgerðum [á borð við niðurfellingu vörugjalda og tolla] og aukinni samkeppni. Verslunin hefur því ekki fitnað mjög á undanförnum árum. Allur kostnaður hefur hins vegar haldið áfram að hækka. Það er því örugglega ekki mikið borð fyrir báru í versluninni og eflaust víðar.“

Fari fram við samningaborðið

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir eðlilegt að umræða um kjaramálin fari fram við samningaborðið.

„Við erum bjartsýn á að það náist samningar,“ segir Finnur.

Að öðru leyti telji hann ekki rétt að tjá sig um stöðuna í kjaramálum. Hagar hafi ekki gert ráðstafanir vegna mögulegra verkfalla.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir fyrirtækin almennt ekki hafa gert áætlanir vegna mögulegra verkfalla.

„Meðan viðræður eru í gangi lifa menn í þeirri von að skynsemin ráði og það náist ásættanleg niðurstaða fyrir báða aðila,“ segir Andrés.

Getur breyst skyndilega

Hann tekur þó fram að staðan geti breyst á skömmum tíma.

„Maður verður ekki var við neinn sérstakan undirbúning frá einstökum félagsmönnum umfram það sem almennt er. Menn fylgjast náið með stöðunni frá degi til dags. Það er að mínu mati mjög þétt samstarf í röðum atvinnurekenda...Það eru engar sérstakar aðgerðir í gangi núna [vegna mögulegra verkfalla] en það getur breyst mjög skyndilega,“ segir Andrés.

Losna flestir í vor
» Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir kjarasamninga hjá meginþorra starfsmanna Isavia á Keflavíkurflugvelli ekki losna fyrr en um mánaðamótin mars/apríl. Samningar hjá einum hópi, þ.e. flugumferðarstjórum, hafi þó runnið út um áramót. Viðræður séu hafnar.
» Það sé ekki gert ráð fyrir að verkföll hafi bein áhrif á vellinum á fyrsta ársfjórðungi.
» Isavia hafi viðbragðsáætlun ef starfsemi fari úr skorðum, svo sem vegna verkfalla eða náttúruhamfara.