Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Tæknin hefur fleytt þjóðum heims til bjargálna síðustu áratugi. Það er langvarandi þróun. Ásgeir Ásgeirsson sagði í nýársávarpi 1965 að „tæknin hefði gert fátæka þjóð farsæla“.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Tæknin hefur fleytt þjóðum heims til bjargálna síðustu áratugi. Það er langvarandi þróun. Ásgeir Ásgeirsson sagði í nýársávarpi 1965 að „tæknin hefði gert fátæka þjóð farsæla“. Sú fullyrðing kom fram löngu áður en samfélagsmiðlar eða ofurtölvur ruddu sér til rúms, en tæknin var þrátt fyrir það á fleygiferð.

Meðal þess sem hefur nú umbylt atvinnuháttum og þróunarstarfi alveg sérstaklega er hin magnaða sýndarveruleikatækni (VR eða Virtual reality). Í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið benti Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, á að þessi tækni nýttist nú við hönnun og uppsetningu vinnslubúnaðar fyrirtækisins. Það er eitt dæmi af þúsundum þar sem þessi tækni nýtist með áður ófyrirséðum hætti. Og sýndarveruleikinn getur sannarlega orðið til frekari verðmætasköpunar og velmegunar.

En það er ekki allur sýndarveruleiki góður. Falsfréttir eru hluti af þeim veruleika, þar sem hlutir eru látnir sýnast öðruvísi en þeir í raun eru. Helstu birtingarmyndir hans hér á landi um þessar mundir eru stórkarlalegar fullyrðingar um að hægt sé að hækka laun um tugi prósenta án þess að það hleypi verðbólgu og vaxtahækkanaferli á fullan skrið. Gera þarf greinarmun á þeim sýndarveruleika sem eykur framleiðni og bætir lífskjör og þeim sem gerir það ekki. Það þarf einnig að greina á milli þeirra sem stuðla að veruleikunum tveimur, sem eiga ekkert skylt hvor við annan.