Klettsvíkin Aðstaða fyrir mjaldrana er komin upp í Klettsvíkinni og þar verður hægt að skoða dýrin. Þarna verða aðalheimkynni þeirra á svipuðum slóðum og Keikó dvaldi á fyrir um 20 árum.
Klettsvíkin Aðstaða fyrir mjaldrana er komin upp í Klettsvíkinni og þar verður hægt að skoða dýrin. Þarna verða aðalheimkynni þeirra á svipuðum slóðum og Keikó dvaldi á fyrir um 20 árum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Garðarsson Vestmannaeyjum Nú styttist í að mjaldrarnir hvítu, Litla-Hvít og Litla-Grá, komi alla leið frá Kína til Vestmannaeyja.

Sviðsljós

Ómar Garðarsson

Vestmannaeyjum

Nú styttist í að mjaldrarnir hvítu, Litla-Hvít og Litla-Grá, komi alla leið frá Kína til Vestmannaeyja. Þar verða heimkynni þessara smáhvela til framtíðar, en eftir að hafa dvalið í sjávardýragarði í Sjanghæ eru þeir að komast á eftirlaun, eins og það var orðað í Morgunblaði mánudagsins. Alþjóðlegt fyrirtæki stendur að baki verkefninu, en lundinn og pysjueftirlitið njóta góðs af, með lundaspítala og sýningarsvæði. Mjöldrunum er ætlaður staður í Klettsvík þar sem ferðamenn geta skoðað þá og í Eyjum er byggt á reynslu frá Keikó-ævintýrinu fyrir rúmum tveimur áratugum. Talsverð umsvif hafa verið í Eyjum vegna komu hvalanna og til að mynda hafa allt að 40 manns starfað við uppbyggingu á hvala-, fiska- og náttúrugripasafni í gömlu Fiskiðjunni sem verður opnað í sumar. Allt er á áætlun og það er eins gott því ekki eru nema um tíu vikur þar til von er á dýrunum.

Fiskiðjan í Vestmannaeyjum sem var eitt af fjórum stóru frystihúsunum í Eyjum fram á tíunda áratug síðustu aldar hefur fengið nýtt hlutverk og reyndar fleiri en eitt. Þar er til húsa Þekkingarsetur Vestmannaeyja sem hýsir fjölda stofnana og fyrirtækja sem fylla aðra hæðina.

Tíu þúsund kílómetrar

Á neðstu hæðinni og í viðbyggingu er verið að útbúa stórt náttúrugripasafn, skrifstofur Vestmannaeyjabæjar verða á þriðju hæðinni og íbúðir á efstu hæðinni. Safnið er byggt upp af Merlin Entertainment sem ætlar að flytja mjaldrana tvo úr safni sínu í Sjanghæ í Kína tíu þúsund kílómetra leið til Keflavíkur og þaðan til Vestmannaeyja. Framtíðarheimilið verður í kví í Klettsvík.

Bragi Magnússon, verkfræðingur hjá Mannviti í Vestmannaeyjum, hefur yfirmsjón með byggingu safnsins sem er að hluta til í gömlu Fiskiðjunni og að hluta til í nýrri byggingu þar sem m.a. verður laug fyrir hvalina sem væntanlegir eru um mánaðamótin mars/apríl. „Nýbyggingin er 1.100 fermetrar og 800 fermetrar af safninu eru í gamla húsinu,“ segir Bragi í samtali við Morgunblaðið.

Nýbyggingin er á þremur hæðum. Á fyrstu hæðinni verður sjálft náttúrugripasafnið og laug fyrir hvalina með tilheyrandi tæknibúnaði. Þar er líka gluggi inn í laugina, 2,5 metrar sinnum 2,5 metrar að stærð. Á annarri hæðinni er aðgangur að lauginni fyrir vísindamenn og fólk sem hefur umsjón með lauginni og hvölunum. Á þriðju hæðinni er svo tæknirými.

„Allt snýst um að dýrunum líði vel og því fer mikið pláss undir tækni- og hreinsibúnað tengt lauginni en þær eru í rauninni tvær, stóra laugin og önnur minni þar sem hægt er að taka hvalina inn ef þarf að hlúa að þeim.“

Sem mest í kvínni í Klettsvík

Hvalirnir eru væntanlegir með beinu flugi frá Sjanghæ og verður lent með þá í Keflavík. „Það er engin krafa um Landeyjahöfn, kannski spurning um veður í Þorlákshöfn en að öðru leyti skiptir það ekki máli því það tekur lengri tíma að keyra í Landeyjahöfn en til Þorlákshafnar. Allir sem koma að þessu hjá Merlin eru fagfólk sem kann til verka þegar kemur að því að flytja hvali á milli staða. Þetta verður því ekkert vandamál,“ segir Bragi.

Gert er ráð fyrir að hvalirnir verði sem mest í kvínni í Klettsvík en fyrstu tvo til þrjá mánuðina verða þeir í lauginni. Það er gert til að aðlaga þá breyttum aðstæðum.

Heildarkostnaður liggur ekki fyrir en Bragi segir að þetta sé flókin og dýr framkvæmd. „Það eru margir verktakar sem koma að þessu og flest fyrirtækin héðan. Framkvæmdir byrjuðu í apríl á síðasta ári og hafa starfsmenn verið flestir um 40. Það er talsverð tímapressa en við erum á áætlun. Við verðum að ná að loka húsinu núna í janúar og maður vonar að veðrið verði okkur hagstætt. Þá tekur við að koma tækjabúnaði fyrir og svo prufukeyra allt saman og stilla áður en dýrin koma.“

Eyjamenn á heimavelli

Eyjamenn eru á heimavelli þegar kemur að því að taka á móti hvölum. Það var mikið fjölmiðlafár þegar háhyrningurinn Keikó var fluttur frá vesturströnd Bandaríkjanna í beinu flugi til Vestmannaeyja haustið 1998. Mátti þá litlu muna að illa færi þegar hjólabúnaður vélarinnar brotnaði í lendingu á Vestmannaeyjaflugvelli. Allt fór þó vel og Keikó komst á sinn stað í Klettsvík en nú er hann allur og allt sem minnir á veru hans í Klettsvíkinni er horfið en verið er að leggja lokahönd á kví og bryggjur fyrir Litlu-Grá og Litlu-Hvít. „Allt okkar starf snýst um að hafa allt klárt þegar stundin rennur upp og það mun takast,“ segir Bragi.

Samhliða hefur verið unnið að gerð kvíar í Klettsvík sem verður aðalheimkynni mjaldranna. Að því koma þrjú fyrirtæki, Króli sem sér um smíði á kví og bryggjum, Ísfell sér um netið í kvíarnar og Gerp um alla köfun.

„Við byggjum á reynslunni af Keikókvínni og höfum þetta allt einfaldara og hún er innar í víkinni. Sem kemur sér vel því þarna getur orðið ansi hvasst svo ekki sé meira sagt,“ segir Bragi.

Risafyrirtæki á bak við komu hvalanna til Vestmannaeyja

Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, hefur komið að uppbyggingu náttúru- og hvalasafnsins í Fiskiðjunni frá því hugmyndin fyrst kviknaði og viðræður hófust við Merlin Entertainment. Það fyrirtæki er ekkert venjulegt, annað stærsta fyrirtæki í heiminum í rekstri skemmtigarða á eftir Disney, með rekstur víða um heim og eru gestir um 60 milljónir á ári.

Það eru ekki bara mjaldrarnir sem málið snýst um því stjórnendur Merlin hafa mikinn áhuga á lundanum og pysjueftirlitinu sem fer í gang á hverju hausti þegar pysjan fer af stað. Ekki liggur fyrir hver kostnaður verður en Vestmannaeyjabær þarf ekki að leggja fram krónu.

Þegar rætt er við Pál um móttöku hvala í Vestmannaeyjum er talað við mann með reynslu en hann var í fremstu víglínu Eyjamanna sem tóku á móti háhyrningnum Keikó 1998. „Það var kannski reynsla mín af Keikóverkefninu sem varð til þess að ég tók það alvarlega þegar viðræður hófust við Merlin Entertainment. Við áttum fund á Skype í maí 2016 og þá fóru hjólin að snúast. Núna, þremur árum seinna, er þetta að verða að veruleika,“ segir Páll Marvin í samtali við Morgunblaðið.

Málið var kynnt í bæjarstjórn og næsta skref var að kanna hvort aðstæður hentuðu. „Ég kafaði í Klettsvíkinni og tók fyrir þá myndir. Einnig könnuðum við hljóðmengun í samstarfi við vísindahóp sem hér hefur kannað háhyrninga undanfarin ár. Allt kom þetta vel út,“ segir Páll en fleira lá að baki þegar Merlin tók ákvörðunina.

Mjaldrarnir verða til sýnis en fólki var haldið frá Keikó

„Það var ekki bara náttúran sem þeir horfðu til. Það voru líka innviðir í Vestmannaeyjum og möguleikar samfélagsins til að takast á við þetta verkefni sem höfðu sitt að segja. Og þeir eru komnir til að vera. Ég vildi ekki sjá annað Keikóævintýri þar sem allt byggðist á því að venja hvalinn af því að vera háður samskiptum við manninn og undirbúa hann fyrir eðlilegt líf, sem reyndist ekki vel.

Eftir Keikó-verkefnið lærðum við hinsvegar að þrátt fyrir að Klettsvíkin geti verið erfið veðurfarslega þá þreifst Keikó vel í víkinni. Annað sem er öðruvísi er að mjaldrarnir verða til sýnis í kvínni en fólki var haldið frá Keikó.“

Páll segir undirbúning fyrir verkefnið hafa verið mikinn þar sem fyrst var fundað með stjórnendum og síðan komu sérfræðingar á vegum Merlin til að skoða og meta aðstæður. „Það var ánægjulegt hve stjórnendur Merlin voru áhugasamir þegar þeir heyrðu af pysjueftirlitinu, en á hverju hausti hópast krakkar í Eyjum út á kvöldin til bjarga lundapysjunni sem flýgur úr holum sínum á ljósin í bænum.

Eftir að lundastofninn hrundi fengum við krakkana til að koma með pysjurnar til okkar þar sem þær voru vigtaðar og mældar. Úr þessu varð pysjueftirlitið til og það finnst þeim athyglisvert. Allt endaði þetta með því að samhliða því að vera með gestastofu fyrir mjaldrana byggja þeir upp nýtt náttúru- og fiskasafn í Fiskiðjunni.“

Nýtt og miklu stærra safn

Núverandi fiskasafn var opnað 1964 og vekur ennþá athygli. „Nú fáum við nýtt og miklu stærra safn sem svarar kröfum nútímans. Þar verður náttúrugripasafnið líka í mun stærra húsnæði og allt þetta erum við að fá án þess að bærinn þurfi að leggja fram krónu.“

Páll lætur mjög vel af samskiptum við starfsfólk Merlin. „Þetta er stórt fyrirtæki í afþreyingariðnaði með skemmtigarða um allan heim sem taka á móti 60 milljón gestum á ári. Allt það fólk sem við erum í samskiptum við er fagfólk með mikla reynslu sem gaman er að vinna með. Starfsemin hér verður ekki ágóðadrifin en það sem þeir fá og við líka er jákvæð ímynd.“

Fleiri hvalir í hvíldarinnlögn?

Páll segir að koma Merlin til Vestmannaeyja hafi þegar vakið athygli ferðamanna. „Ef allt gengur upp hjá okkur með nýjum Herjólfi og þessari nýjung fyrir ferðamenn er framtíðin björt. Í allt verða tíu stöður við safnið og kemur fólk frá Merlin til með að þjálfa starfsmennina. Samkvæmt upplýsingum frá Markaðsstofu Suðurlands er mikill áhugi á Vestmannaeyjum sem skýrist meðal annars af komu hvalanna og nýrri Vestmannaeyjaferju. Ef allt gengur upp verða Vestmannaeyjar heitasti ferðamannastaður landsins hjá ferðamönnum á komandi árum.

Merlin tekur áhættuna á þessari uppbyggingu og borgar allan kostnað en í þessu felast einnig tækifæri til að taka inn fleiri hvali í hvíldarinnlögn þannig að þetta gæti orðið byrjunin á ennþá stærra ævintýri,“ sagði Páll að endingu.