Óskar Reykdalsson
Óskar Reykdalsson — Morgunblaðið/Hari
Eftir Óskar Reykdalsson: "Vinnufyrirkomulag hefur breyst mikið og allar heilsugæslustöðvarnar eru í stöðugu umbótaferli til að bæta þjónustuna."

Heilsugæslan stendur á tímamótum. Í fyrsta sinn frá hruni er raunveruleg viðbót í fjárveitingum til heilsugæslunnar, fyrst á árinu 2017 og núna aftur á árinu 2018 og 2019. Af því tilefni er rétt að vekja athygli á þeim breytingum sem verið hafa í gangi.

Fyrir þremur árum hófst vinna við að einfalda stjórnun og vinnulag og breyta innviðum með það í huga að bæta þjónustu við skjólstæðinga heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Núna eru því allir stjórnendur nýráðnir og einn stjórnandi ábyrgur fyrir hverri stöð. Þetta gildir um heilsugæslustöðvar innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Samstarf þessara stjórnenda er mikið. Allt er þetta gert með hagsmuni sjúklinga í huga. Vinnufyrirkomulag hefur breyst mikið og allar heilsugæslustöðvarnar eru í stöðugu umbótaferli til að bæta þjónustuna við okkur öll.

Starfsfólki heilsugæslustöðva fjölgar

Öflug starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við að mennta sérfræðinga í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun hefur leitt til betri mönnunar og bjartari framtíðar. Núna eru nokkrir tugir í þessu sérnámi. Enn gengur þó hægt að manna stöður utan höfuðborgarsvæðisins. Veruleg fjölgun sálfræðinga er nýtt og starfa tugir sálfræðinga innan heilsuæslunnar, bæði barnasálfræðingar og fullorðinssálfræðingar. Sjúkraþjálfarar sinna hreyfiseðlum til að tryggja hreyfingu sem meðferðarform og það hefur verið í nokkur ár.

Á höfuðborgarsvæðinu eru reknar 19 heilsugæslustöðvar og eru 15 af þeim í opinberum rekstri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Innan HH eru einnig göngudeild sóttvarna og hælisleitenda, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Þroska- og hegðunarmiðstöð og svæðisbundin geðheilbrigðisþjónusta fyrir þá verr settu í svokölluðum geðheilsuteymum. Hjá HH eru nærri 700 starfsmenn sem eru sérmenntaðir til að veita heilbrigðisþjónustu og gera það af lífi og sál.

Bráðaþjónustan

Á heilsugæslustöðvunum eru um 40 hjúkrunarfræðingar og/eða læknar á vakt alla virka daga milli kl. 8 og 18. Þeir taka á móti þeim sem ekki telja sig geta beðið eftir hefðbundnum tíma, sem eru um 1.000 manns á hverjum virkum degi. Samstarf við bráðamóttöku LSH fer vaxandi og er fólki vísað á milli þessara eininga svo sjúklingarnir fái bestu mögulegu þjónustu. Utan dagvinnutíma sinnir Læknavaktin vaktþjónustu til kl. 23.30. Símaþjónustan í síma 1700 er á landsvísu og þar geta allir fengið leiðsögn í kerfinu og þar er ráðgjöf hjúkrunarfræðings í síma.

Samstarf við aðrar stofnanir

Aukið samstarf við Landspítalann, og þá sérlega í bráðaþjónustu, er vaxandi. Þegar vandi kemur upp á öðrum hvorum staðnum eru allir boðnir og búnir að hjálpa til. Þetta er algengt á tímum eins og núna þegar inflúensan er í hámarki eða þegar stór umferðarslys verða. Þá eru sjúklingar fluttir á þá staði sem minna er að gera á.

Heimaþjálfun og hjúkrun

Í framhaldi af auknum fjárveitingum til heimahjúkrunar er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins að hefja heimaæfingar fyrir aldraða en ekki eingöngu heimahjúkrun. Þetta verkefni er rétt að hefjast á suðursvæðinu þar sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur með heimahjúkrun að gera. Hugsunin er að þjálfa fólk og styrkja og þannig auka færni og styrk og aðstoða fólk við að geta séð um sjálft sig lengur og minnka þörf fyrir aðstoð. Þetta er gert að erlendri fyrirmynd og eru vonir okkar bundnar við að þetta verði skynsamleg leið.

Gæðastýrt fyrirkomulag fjárveitinga

Greiðslulíkan hefur nú verið sett í gang þar sem hver stöð fær fjárveitingu í samræmi við þá einstaklinga sem skráðir eru á stöðina. Það er því okkur öllum mikilvægt að allar skráningar séu réttar. Þá fer fjárveiting eftir mörgum gæðaþáttum. Ef sjúklingur er fjölveikur er fjárveiting meiri og ef vissum gæðaþáttum er fylgt, eins og að gera viðeigandi mælingar hjá ákveðnum sjúklingahópum, er fjárveiting meiri. Allt er þetta gert með hagsmuni okkar allra í huga. Þannig fáum við betri heilbrigðisþjónustu og við sem vinnum í heilsugæslunni verðum enn skilvirkari í vinnubrögðum til að ná fram betri heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslustöðvarnar fá líka meira fjármagn ef þær standa sig í heilsuvörnum eins og að bólusetja öll börn á réttum tíma. Þetta kerfi er líka vel til þess fallið að auka samkeppni um sjúklinga.

Fyrsti viðkomustaðurinn

Í flestum tilvikum er eðlilegast að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu. Vert er þó að vekja athygli á símanúmerinu 1700 en þar er fagleg ráðgjöf í síma og oft hægt að fá lausn sinna mála þar. Í neyðartilvikum er 112 fagleg og vönduð ráðgjöf.

Fjárveitingar

Nýtt fyrirkomulag við fjárveitingar til heilsugæslustöðva er til fyrirmyndar en betur má ef duga skal. Mikilvægt er að aðrar stofnanir í rekstri innan heilbrigðiskerfisins taki upp gæðastýrða aðferð við fjárveitingar. Mesta áskorun okkar sem þjóðar er aukin fjárþörf vegna fjölgunar aldraðra í samfélaginu sem þurfa þjónustu. Besta mögulega nýting er mikilvæg og brýnt að fara að ákveða hvernig samstarf við viljum hafa á milli okkar sem vinnum með sjúklinga. Einnig er nauðsynlegt að ákveða verkferla í meira mæli en gert hefur verið. Margir slíkir eru í gangi og ganga vel. Fjárveiting til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu er a.m.k. 20% lægri en sambærileg fjárveiting víða í Svíþjóð og þar þurfum við að gera betur.

Höfundur er settur forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Höf.: Óskar Reykdalsson