Donald Trump
Donald Trump
Embætti forseta Bandríkjanna hefur mikla sérstöðu í veröldinni. Mestu skiptir að þar fer oddviti öflugasta ríkis heims, sem svo vel vill til að er lýðræðisríki.

Embætti forseta Bandríkjanna hefur mikla sérstöðu í veröldinni. Mestu skiptir að þar fer oddviti öflugasta ríkis heims, sem svo vel vill til að er lýðræðisríki.

Við bætist að forsetinn hefur meiri völd á sinni könnu en títt er í lýðræðisríkjum þótt önnur ríki, svo sem Frakkland, hafi fært sínum forseta mikil viðbótarvöld eftir upplausnarskeið á eftirstríðsárunum.

Forsetinn er ekki aðeins æðsti handhafi framkvæmdavaldsins heldur jafnframt þjóðhöfðingi.

Og stundum virðist konunglegur svipur á umgengni við forsetann og er t.d. sérstakt stef spilað þegar hann gengur opinberlega í sal. Og fjölmiðlar hanga á hverju orði forsetans og þótt fyrir vestan séu flestir öflugustu fjölmiðlar landsins hælbítar forsetans og leyni lítt hatri sínu á honum þá þjappar það trúaðasta fylginu fastar um hann.

Forsetinn getur tilkynnt að hann muni flytja ávarp til þjóðarinnar og þótt frjálsir fjölmiðlar séu ekki bundnir við að senda það út taka þeir ekki þá áhættu að vera ekki með þegar og ef forsetinn segir eitthvað fréttnæmt. Og þá má ekki gleyma því að það sem forsetinn segir er þegar af þeirri ástæðu orðið fréttnæmt.

Slíkt skyndiávarp var flutt í fyrradag. Repúblikanar segja að forsetinn hafi komist vel frá því og styrkt sig. Demókratar segja að því fari fjarri. Þetta tvennt var fyrirsjáanlegt.