Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson
Ísland verður í riðli með Kanada og Skotlandi í Algarve-bikarnum í knattspyrnu kvenna sem venju samkvæmt fer fram í suðurhluta Portúgal í byrjun mars.

Ísland verður í riðli með Kanada og Skotlandi í Algarve-bikarnum í knattspyrnu kvenna sem venju samkvæmt fer fram í suðurhluta Portúgal í byrjun mars. Keppnisfyrirkomulagi hefur verið breytt á þann veg að liðin tólf leika nú í fjórum riðlum en ekki þremur. Það er gert til að fækka leikjum hvers liðs á mótinu úr fjórum í þrjá en til þessa hafa verið spilaðir fjórir leikir á einni viku.

Kanada er sterkasta liðið á mótinu, samkvæmt FIFA-listanum, þar sem liðið er í 5. sæti. Skotar eru í 20. sæti, tveimur sætum ofar en íslenska liðið. Ísland mætir líka Skotlandi í vináttuleik á La Manga 21. janúar og tveir af þremur fyrstu landsleikjunum undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar verða því gegn Skotum.

Ísland er með á mótinu þrettánda árið í röð og í fimmtánda skipti alls. Önnur lið á mótinu eru Holland, Svíþjóð, Spánn, Noregur, Kína, Danmörk, Sviss, Portúgal og Pólland. vs@mbl.is