Mannrán Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt í október sl.
Mannrán Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt í október sl. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Lögreglan í Noregi tilkynnti í gær að henni hefðu borist kröfur um lausnargjald fyrir Anne-Elisabeth Falkevik Hagen, eiginkonu auðkýfingsins Tom Hagen, en hún hvarf 31. október síðastliðinn.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Lögreglan í Noregi tilkynnti í gær að henni hefðu borist kröfur um lausnargjald fyrir Anne-Elisabeth Falkevik Hagen, eiginkonu auðkýfingsins Tom Hagen, en hún hvarf 31. október síðastliðinn.

Rannsóknarlögreglumenn hafa haft málið til skoðunar síðustu vikurnar en fóru ekki hátt með það fyrr en í gær, þegar biðlað var til almennings um frekari upplýsingar sem gætu komið þeim á sporið.

Tommy Broske, fulltrúi lögreglunnar, staðfesti við norska fjölmiðla í gær að krafist hefði verið lausnargjalds, og einnig að „alvarlegar hótanir“ hefðu borist um hver örlög Falkevik Hagen yrðu ef lögregla eða fjölmiðlar blönduðu sér í málið. Því hefði lögreglan ekki vilja lýsa því yfir opinberlega að hún væri að rannsaka málið fyrr en nú.

Sagði Broske að helsta kenning lögreglunnar væri sú að Falkevik Hagen hefði verið rænt af heimili sínu í Lorenskog, sem er um 20 kílómetra frá höfuðborginni Osló.

Þá kom fram í máli hans að engar vísbendingar hefðu borist um það hvort Falkevik Hagen væri enn á lífi, en að það hefði heldur ekkert bent til þess að hún væri dáin. Lögreglan hefur hins vegar engan grunaðan á þessu stigi málsins.

Heimildir norska blaðsins Verdens Gang herma að lausnargjaldið sem krafist sé nemi níu milljónum evra, og að það eigi að greiðast í rafmyntinni monero, sem erfiðara yrði að rekja fyrir lögregluna. Broske vildi ekki staðfesta að þetta væri rétt upphæð, en lögreglan hefur ráðlagt fjölskyldu Hagen að borga ekki, og mun fjölskyldan hafa fylgt þeim ráðleggingum.