Viðhorfskönnun JPMorgan Chase meðal bandarískra fyrirtækja bendir til að þau séu bjartsýn á horfurnar í sínum eigin rekstri á meðan viðhorfið til innanríkis- og alþjóðamála endurspeglar þann tón sem lesa má í fréttum.
Viðhorfskönnun JPMorgan Chase meðal bandarískra fyrirtækja bendir til að þau séu bjartsýn á horfurnar í sínum eigin rekstri á meðan viðhorfið til innanríkis- og alþjóðamála endurspeglar þann tón sem lesa má í fréttum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andrew Edgecliffe-Johnson í New York Dregið hefur úr bjartsýni stjórnenda bandarískra fyrirtækja en heilt á litið virðist hagkerfið þróttmikið og helsti vandinn að finna fólk til að manna lausar stöður.

Aðeins 39% stjórnenda meðalstórra bandarískra fyrirtækja eru bjartsýn á horfurnar í alþjóðahagkerfinu árið 2019, og er það 30 prósentustigum lægra hlutfall en á sama tíma í fyrra. Kemur þetta fram í nýrri könnun sem jafnframt sýnir að verulegur munur er á tiltrú fyrirtækja á eigin frammistöðu og þeim markaðsaðstæðum sem þau vænta á alþjóðavettvangi.

Jim Glassmann, hagfræðingur hjá JPMorgan Chase, segir að sú togstreita sem hefur komið upp milli Bandaríkjanna og fjölda viðskiptaþjóða landsins, til viðbótar við áhyggjur af að nærri áratugarlangt uppgangstímabil sé senn á enda, hafi átt þátt í að fyrirtæki með tekjur á bilinu 20 og 500 milljónir dala eru farin að sýna meiri aðgát.

Í árlegri skýrslu bankans, Business Leaders Outlook, sem kom út á mánudag, má sjá að meirihluti stjórnenda bandarískra fyrirtækja sér framtíðina í jákvæðu ljósi og segjast 84% stjórnenda meðalstórra fyrirtækja, og 74% stjórnenda fyrirtækja með tekjur undir 20 milljónum dala, að þeir séu bjartsýnir á rekstrarhorfurnar.

Nærri allir stjórnendur, eða 91% svarenda, kváðust ýmist ætla að auka eða halda fjárfestingarútgjöldum óbreyttum á þessu ári en Glassmann segir þó of snemmt að segja til um hvort þessi tala taki tillit til þeirra áhrifa sem urðu af lækkun fyrirtækjaskatta í desember 2017 – sem repúblíkanar hömpuðu sem leið til að efla fjárfestingu í atvinnulífinu.

Um 74% meðalstórra fyrirtækja og 58% smærri fyrirtækja vænta þess að tekjur þeirra hækki á þessu ári.

Fara varlegar í sakirnar

„Það sem er áhugavert við niðurstöðurnar er að stjórnendur virðast alla jafna bjartsýnir á það sem þeir þekkja best, en ef þeir eru spurðir út í innanríkismál eða alþjóðamálin þá endurspeglar viðhorfið alla jafna það sem má lesa í fréttunum hverju sinni,“ segir Glassmann. „Fyrirtæki eru farin að sýna meiri varkárni í vaxtaráætlunum sínum og einbeita sér að þeim atriðum sem þau geta haft einhverja stjórn á.“

Svarendur voru heilt á litið bjartsýnni á horfurnar í hagkerfi Bandaríkjanna en í alþjóðahagkerfinu, en hlutfall jákvæðra meðalstórra fyrirtækja lækkaði um 16 prósentustig, niður í 73%, og í tilviki smærri fyrirtækja var hlutfallið aðeins 55% sem jafngildir 8 prósentustiga lækkun milli ára.

„Ef við gætum ferðast aftur í tímann þá held ég að það væri erfitt að finna það tímabil í sögu Bandaríkjanna þar sem þjóðhagfræðileg skilyrði hafa verið betri,“ segir Glassmann. „Eina alvöru áskorunin sem atvinnulífið stendur frammi fyrir er að finna fólk til að manna lausar stöður.“

Niðurstöður könnunarinnar ríma við nýlegar rannsóknir sem sýna að stjórnendur stórfyrirtækja eru enn þó nokkuð bjartsýnir, þó ögn hafi slegið á bjartsýnina á undanförnum misserum. Könnunin stemmir líka við þær tölur sem komu fram í nýjustu vinnumarkaðskönnun bandarískra stjórnvalda, sem kom út á föstudag, og sýndi að enn er ágætis skriður á fjölgun starfa.

Eftir því sem dregur úr áhyggjum fyrirtækjanna af að tekjur þeirra aukist nógu hratt hefur vöntun á sérhæfðu vinnuafli tekið við sem helsta áhyggjuefnið í könnun JPMorgan, að því er Glassmann greinir frá, og hafa vinnuveitendur brugðist við með því að reyna að laða til sín nýja starfsmenn með starfsþjálfun og með því að bjóðast til að taka þátt í að greiða niður námslánaskuldir þeirra.