Forveri Flugvöllinn í Kaldaðarnesi nýttu Bretar í fyrstu eftir hernámið 1940. Nú er til skoðunar að byggja nýjan flugvöll skammt frá.
Forveri Flugvöllinn í Kaldaðarnesi nýttu Bretar í fyrstu eftir hernámið 1940. Nú er til skoðunar að byggja nýjan flugvöll skammt frá. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta var hressilegur fundur. Það voru þrír eða fjórir mjög mótfallnir þessum áformum en almennt voru mjög góðar undirtektir meðal íbúa,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta var hressilegur fundur. Það voru þrír eða fjórir mjög mótfallnir þessum áformum en almennt voru mjög góðar undirtektir meðal íbúa,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá hafa verið uppi hugmyndir um byggingu alþjóðaflugvallar í Flóanum, nánar til tekið þar sem heitir Stokkseyrarmýri og Brautartunga. Sveitarfélagið boðaði landeigendur á áhrifssvæði flugvallarins til fundar á þriðjudagskvöld vegna þessara áforma. Á fundinum var farið yfir kosti og galla við þessa framkvæmd.

„Við töldum nauðsynlegt að fá fram sjónarmið þeirra sem helst yrðu fyrir áhrifum af flugbraut sem sett yrði niður þarna. Það var vel mætt, alla vega 50 manns sem er gott miðað við að þetta var ekki opinn fundur. Þarna voru fulltrúar þessara áhugamanna um byggingu flugvallarins auk fulltrúa frá Eflu verkfræðistofu sem kynntu þessar pælingar og tóku svo við athugasemdum og söfnuðu í sarpinn. Viðbrögðin voru almennt jákvæðari en ég átti von á,“ segir Gísli.

Gísli segir líklegt að næstu skref í málinu verði tekin í bæjarráði eða bæjarstjórn í næstu viku. Þá verði ákveðið hvort Árborg gefi út stuðningsyfirlýsingu við forskoðun á kostum og göllum við framkvæmdina.

„Það verður nokkurra ára ferli að skoða þetta. Ég held að þeir bjartsýnustu í spám geri ráð fyrir að opna flugvöll 2024. En þó að Árborg leggi blessun sína yfir þessa forskoðun yrði Árborg ekki beinn aðili að framkvæmdinni. Sveitarfélagið hefði hvorki aðkomu að fjármögnun forskoðunarinnar né framkvæmdinni sjálfri nema er snýr að skipulagsmálum og ef halda þarf íbúakosningu. Þetta yrði bara móralskur stuðningur.“