Landsliðsmaður Sölvi Freyr Atlason leikur með 20 ára landsliði Íslands sem stendur í ströngu á heimavelli í næstu viku en HM hefst á mánudaginn.
Landsliðsmaður Sölvi Freyr Atlason leikur með 20 ára landsliði Íslands sem stendur í ströngu á heimavelli í næstu viku en HM hefst á mánudaginn. — Ljósmynd/Andrés Arnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íshokkí Kristján Jónsson kris@mbl.is Íshokkísamband Íslands tekur að sér gestgjafahlutverkið í 3. deild heimsmeistarakeppni karla skipað leikmönnum 20 ára og yngri. Deildin verður spiluð í Skautahöllinni í Laugardal 14.-20. janúar næstkomandi.

Íshokkí

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Íshokkísamband Íslands tekur að sér gestgjafahlutverkið í 3. deild heimsmeistarakeppni karla skipað leikmönnum 20 ára og yngri. Deildin verður spiluð í Skautahöllinni í Laugardal 14.-20. janúar næstkomandi.

Ísland er í riðli með Ástralíu, Taívan og Tyrklandi og verður fyrsti leikur Íslendinga gegn Áströlum mánudaginn 14. janúar.

„Verður maður ekki alltaf að vera bjartsýnn?“ spurði landsliðsmaðurinn Sölvi Freyr Atlason þegar Morgunblaðið tók púlsinn á honum í gær. Hann segist telja möguleika Íslands góða en liðið sem vinnur deildina fer upp og leikur í 2. deild HM á næsta ári. Átta lið munu keppa í tveimur riðlum og að þeim leikjum loknum fara fram undanúrslit og úrslitaleikur, ásamt leikjum um sæti fimm til átta, en mótinu lýkur á sunnudagskvöldinu 20. janúar. Í B-riðli keppninnar eru Búlgaría, Suður-Afríka, Kína og Nýja-Sjáland.

Lítið má út af bregða ef vinna á mótið og kallar það á að spila fimm leiki á sjö dögum. „Já, þetta verður mikið álag og við höfum undirbúið okkur mjög vel. Í svona móti er best að spila á þremur til fjórum línum til að dreifa álaginu á milli leikmanna svo menn verði ekki of þreyttir. Við erum með þrjár mjög sterkar línur að mínu mati og í fjórðu línunni eru líkamlega sterkir strákar,“ sagði Sölvi.

Tyrkirnir féllu niður

Tyrkland féll úr 2. deild í fyrra og því líklegt að liðið sé sterkt í 3. deildinni en slíkar áætlanir geta þó verið erfiðar þegar um yngri landslið er að ræða þar sem leikmenn stoppa stutt við vegna aldurs. Síðasti leikur Íslands í riðlinum verður einmitt gegn Tyrkjum.

„Tyrkirnir verða væntanlega sterkir og Ástralar hafa oft verið með gott lið. Þessi mót eru gjarnan jöfn og úrslit leikjanna ráðast gjarnan á lokamínútunum. Það má alveg eins búast við því í þetta skiptið. Markmið okkar er að vinna mótið en það hefur mistekist hjá okkur síðustu árin og aðallega út af klaufaskap að mínu mati. Við ætlum okkur alla leið í ár,“ sagði Sölvi og hann segir mikla eftirvæntingu fylgja því að spila á heimavelli en landsliðin eru vön því að spila í slíkum mótum erlendis.

„Oft hafa þessi mót verið í fjarlægum löndum eins og Nýja-Sjálandi eða Mexíkó. Það er rosaleg spenna sem fylgir því að fá að spila hérna heima og maður hefur beðið nokkuð lengi eftir þessu móti. Ég býst við því að fólk muni koma í Skautahöllina og styðja okkur,“ sagði Sölvi Freyr Atlason í samtali við Morgunblaðið en hann leikur með Skautafélagi Reykjavíkur í Hertz-deildinni.