[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Lovísu Líf Jónsdóttur: "Þeir sem sækjast eftir áhrifastöðum þurfa gjarnan að ýta öllu öðru til hliðar til þess að komast á toppinn og eru það frekar karlar sem velja það en konur."

Hið svokallaða feðraveldi er hugtak sem mikið hefur verið notað upp á síðkastið og allt sem miður fer í samfélaginu viðist eiga rætur sínar að rekja til þess. Feðraveldi á að vera einhvers konar félagslegt kúgunarkerfi sem byggist á yfirráðum karla og fullyrða sumir að konur hafi ekki jöfn tækifæri á við karla í samfélaginu og að svo hafi verið um aldir.

Það virðist vera mikið um það í dag að almennri rökhyggju er hafnað og tilfinningar hvers og eins eru allsráðandi, svokallaður póstmódernismi. Sannleikurinn samkvæmt skilgreiningu og tilfinningu hvers og eins verður jafngildur staðreyndum, rökum og vísindum. Oft er jafnvel búið til vandamál sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Gott dæmi um það eru sjálfsmyndarstjórnmál (e. identity politics).

Staðan er sú að Skandinavía er fremst í heiminum hvað varðar jafnrétti kynjanna og er Ísland þar í forystu.

Ef við skoðum íslenskt samfélag á grundvelli jafnréttis þarf einnig að skoða það hvar áhugasvið kynjanna liggur.

Eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti frá Hagstofu Íslands, „Brautskráningar eftir prófgráðu“ (sjá mynd) eru töluvert fleiri konur en karlar sem útskrifast með stúdentspróf og/eða háskólagráðu á meðan fleiri karlar en konur útskrifast með iðn- og/eða sveinspróf.

Samkvæmt línuritinu „Brautskráningar á háskólastigi“ frá Hagstofu Íslands (sjá mynd) má sjá að konur sækja heldur í nám sem tengist heilbrigði og velferð, menntun, landbúnaði, dýralækningum, hugvísindum, listum, þjónustu, félagsvísindum, viðskiptum og lögfræði á meðan karlar sækja heldur í raunvísindi, stærðfræði, tölvunarfræði, verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð. Allt er þetta frjálst val hvers og eins einstaklings og sést það hér svart á hvítu hvar áhuginn liggur að meðaltali á milli kynjanna.

Oft er hinu svokallaða feðraveldi kennt um meirihluta karla í áhrifastöðum samfélagsins. Ástæða þess meirihluta er ekki vegna aukinna tækifæra karla á vinnumarkaði heldur annars vegar vegna þess að þeir sækjast heldur eftir því og hins vegar vegna þess að áhrifastöðu á borð við stjórnun stórfyrirtækis fylgir gríðarlegt álag og oft á tíðum liggja miklar fórnir þar að baki t.d. fjölskyldulíf. Þeir sem sækjast eftir áhrifastöðum þurfa gjarnan að ýta öllu öðru til hliðar til þess að komast á toppinn og eru það frekar karlar sem velja það en konur t.d. vegna barneigna og þess háttar.

Ef við skoðum stöðu kynjanna á Alþingi er hlutfall þingmanna 38% konur og 62% karlar og hlutfall ráðherra fimm konur á móti sex körlum sem er býsna góður árángur.

Við höfum öll okkar val hvort sem það er val á námi, starfi eða að bjóða okkur fram til kjörs. Við höfum einnig val um að kjósa og þar að auki hverja við kjósum í kosningum og með því höfum við áhrif á hvernig hlutunum er háttað í samfélaginu. Er ekki frelsið dýrmætt?

Höfundur er námsmaður.

Höf.: Lovísu Líf Jónsdóttur