Rithöfundur Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg er 100 ára í dag, heiðursfélagi Sögufélags Skagfirðinga.
Rithöfundur Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg er 100 ára í dag, heiðursfélagi Sögufélags Skagfirðinga.
Björn Björnsson Sauðárkróki Kristmundur Bjarnason, rithöfundur og fræðimaður frá Sjávarborg í Skagafirði, er 100 ára í dag. Kristmundur er fæddur á Reykjum í Tungusveit 10. janúar 1919.

Björn Björnsson

Sauðárkróki

Kristmundur Bjarnason, rithöfundur og fræðimaður frá Sjávarborg í Skagafirði, er 100 ára í dag. Kristmundur er fæddur á Reykjum í Tungusveit 10. janúar 1919. Foreldrar hans voru Kristín Sveinsdóttir og Bjarni Kristmundsson en fósturforeldrar voru sr. Tryggvi H. Kvaran á Mælifelli og Anna Gr. Kvaran, sem ólu Kristmund upp með dætrum sínum tveimur, Hjördísi og Jónínu.

Í tilefni þessara merku tímamóta í lífi Kristmundar gefur Sögufélag Skagfirðinga út bókina Í barnsminni - minningaslitur frá bernskuárum . Sölvi Sveinsson annaðist útgáfuna en bókin, sem Kristmundur ritaði á árunum 2005-2006, fjallar um bernskuár hans á Mælifelli.

Útgáfuhátíð verður haldin í Safnahúsinu á Sauðárkróki næstkomandi laugardag kl.16. Þar mun Hjalti Pálsson, ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar, segja lítillega frá æviferli Kristmundar og kynnum sínum af honum, Unnar Ingvarsson segir frá kynnum og samstarfi við Kristmund og Kristján B. Jónasson talar um bókmennta- og fræðistörf Kristmundar. Sölvi Sveinsson mun kynna bókina og lesa upp úr henni en Sólborg Una Pálsdóttir héraðsskjalavörður stýrir dagskránni.

Kristmundur naut hefðbundinnar skólagöngu í heimahéraði en lauk stúdentsprófi frá MA árið 1940. Frá árinu 1949 var Kristmundur bóndi á Sjávarborg, glæsilegu býli í hjarta héraðsins og stundaði fræðimennsku og ritstörf meðfram bústörfum. Hann varð fyrsti héraðsskjalavörður Skagfirðinga og sinnti því starfi allt til ársins 1990. Með starfi sínu við safnið lagði hann grunn að því að gera Héraðsskjalasafnið eitt hið besta utan Reykjavíkur.

Kristmundur er löngu landsþekktur fyrir fræðastörf sín og er með ólíkindum umfang verka hans sem unnin voru meðfram annasömum bústörfum. Þegar á námsárum sínum fékkst hann við þýðingar á barna- og unglingabókum og nægir þar að nefna bókaflokka eftir Enid Blyton og söguna af Stikilsberja-Finni eftir Mark Twain. En umfangsmesti hluti ritstarfanna hefur verið helgaður sagnfræði og þjóðlegum fróðleik.

Af viðamiklum verkum Kristmundar má nefna, án uppröðunar: Saga Þorsteins frá Skipalóni, Jón Ósmann ferjumaður, Saga Sauðárkróks til ársins 1947, Saga Dalvíkur, Sýslunefndasaga Skagafjarðar, Svipmyndir úr sögu Gríms Thomsen, Sauðárkrókskirkja og formæður hennar, auk ótölulegs fjölda greina í blöðum og tímaritum sem fjalla um fólk og mannlíf á liðnum öldum, svo sem Langt inn í liðna tíð , svo eitthvað sé nefnt. Síðasta stórvirki Kristmundar var ritverkið Amtmaðurinn á einbúasetrinu, ævisaga Gríms Jónssonar, amtmanns á Möðruvöllum, sem kom út nokkrum vikum fyrir 90 ára afmæli hans. Kristmundur hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. Viðurkenningu Hagþenkis og Samfélagsviðurkenningu Skagafjarðar. 68