[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Reita fasteignafélags um mikla uppbyggingu á lóðunum Suðurlandsbraut 34 og Ármúla 31. Stefnt er að undirritun samninga á allra næstu dögum.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Reita fasteignafélags um mikla uppbyggingu á lóðunum Suðurlandsbraut 34 og Ármúla 31. Stefnt er að undirritun samninga á allra næstu dögum.

Reitir hafa staðið að uppbyggingu á mörgum byggingarreitum og áforma m.a. stórfellda uppbyggingu á Kringlureitnum.

Umræddar lóðir eru á horni Suðurlandsbrautar, Grensásvegar og Ármúla, alls 26 þúsund fermetrar. Rafmagnsveitur Reykjavíkur voru með bækistöð á lóðunum um árabil.

Fram kemur í greinargerð skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að Reitir fasteignafélag hf., eigandi fasteigna á leigulóðinni Suðurlandsbraut 34 og Ármúla 32, hafi kynnt borgaryfirvöldum hugmyndir að uppbyggingu á lóðunum í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Hugmyndirnar geri ráð fyrir niðurrifi á iðnaðarhúsum á lóðinni, verulegri uppbyggingu og að nýtingu lóðarinnar verði breytt í blandaða byggð með íbúðum og atvinnuhúsnæði.

Arkitektar vinna hugmyndir

Áform félagsins miða að því að heildarbyggingarmagn verði að lágmarki rúmir 45.000 fermetrar, íbúðir verði 400 til 500 og atvinnuhúsnæði um 5.000-6.000 fermetrar.

Með viljayfirlýsingunni er samið um að unnin verði í samstarfi ný deiliskipulagstillaga um fyrirkomulag og nýtingu á lóðinni. Áformað er að þrjár arkitektastofur vinni hugmyndir, sem sérstök dómnefnd mun meta. Mynda á samráðshóp lóðarhafa og borgaryfirvalda til að vinna að verkefninu og verkstýra vinnu við gerð deiliskipulagstillögu.

Gert er ráð fyrir að lóðin verði minnkuð við Suðurlandsbraut vegna fyrirhugaðrar legu borgarlínu og ekki komi til greiðslu til lóðarhafa vegna skerðingarinnar.

Uppbygging á lóðinni verður í samræmi við markmið og í anda húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar. Miðað er við að um 15% íbúða á lóðinni verði leiguíbúðir, þ.e. íbúðir Félagsbústaða, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Félagsbústaðir hafa kauprétt að þriðjungi þessara íbúða á umsömdu föstu verði.

Aðilar miða við að framkvæmdir við uppbyggingu á lóðinni hefjist ekki síðar en tveimur árum eftir að nýtt deiliskipulag hefur verið samþykkt. Samráðshópi verður falið að stilla upp tímaáætlun fyrir skipulagsvinnu og uppbyggingu á lóðinni.

Sem fyrr segir voru Rafmagnsveitur Reykjavíkur með bækistöðvar á þessum stað. Hitaveita Reykjavíkur var með bækistöðvar á lóð hinum megin við Grensásveg. Þessi tvö fyrirtæki sameinuðust árið 1999 undir heitinu Orkuveita Reykjavíkur. Orkuveitan reisti höfuðstöðvar við Bæjarháls í Árbæjarhverfi. Þær voru teknar í notkun árið 2003 og eignirnar við Suðurlandsbraut og Grensásveg voru þá seldar.

Rafmagnsveitureiturinn er stór og gróinn og býður upp á mikla möguleika varðandi uppbyggingu. Fimm hæða bygging, Orkuhúsið, setur svip sinn á reitinn. Þarna voru áður skrifstofur Rafmagnsveitunnar en nú eru læknastofur í húsinu. Arkitektarnir Guðmundur Kr. Guðmundsson og Ferdinand Alfreðsson teiknuðu húsið. Við Ármúlann eru lágreistar byggingar, sem munu væntanlega hverfa.