Marta B Helgadóttir
Marta B Helgadóttir
Eftir Mörtu B. Helgadóttur: "Erlendar freigátur sigla um þjóðvegi, ryðja frá sér heimamönnum og stíma svo heim með verðmætin."

„Hvað hefði orðið um þessa þjóð ef hún hefði ekki öðlast yfirráð yfir fiskilögsögunni?

Nú eru verðmæti ferðaþjónustunnar á Íslandi í formi gjaldeyristekna mun meiri en fiskútflutnings. Hver hefði trúað því að það gæti gerst fyrir bara áratug?

Nú virðist hins vegar sem auðlindin ferðaþjónusta sé hægt og rólega að renna okkur úr greipum vegna andvaraleysis þjóðarinnar.

Erlendar freigátur sigla um þjóðvegi, ryðja frá sér heimamönnum og stíma svo heim með verðmætin. Eftir standa heimamenn með hor í nös og hafa eftirlit hver með öðrum.“ – Svo mæltist góðum kollega nýverið.

Af hverju ættu erlend fyrirtæki að fara að lögum? Hundruð milljóna fara framhjá kerfinu og skekkja samkeppnisstöðuna. Stöðugt fréttist af fleiri fyrirtækjum, sum þeirra íslensk, sem þrífast á erlendu vinnuafli, borga starfsfólkinu skammarleg laun ef nokkur og halda fólki í tímabundnum ráðningum. Hirða svo sjálfir þann hluta sem launagreiðslur starfsfólks væru ef heiðarlega væri staðið að rekstrinum. Þessir aðilar skekkja samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem vilja stunda rekstur af einurð og metnaði, vilja ráða til sín hæft fólk, lærða leiðsögumenn og hæfa bílstjóra sem þekkja náttúru landsins og síbreytilegar aðstæður – vilja starfsfólk sem kann þá kúnst að leyfa ferðamönnum að fá þau gæði út úr ferð sinni að þá langi til að koma aftur og skoða meira af landinu.

Ánægður viðskiptavinur er oft öflugasta auglýsingin.

Við ferðaþjónustufólk þurfum að stilla strengi okkar saman og uppræta erlenda ólöglega starfsemi. Til þess þarf góðan stuðning ferðamálayfirvalda og ekki síst þarf lagaramminn að styðja við greinina.

Við þurfum að lögvernda starfsheiti leiðsögumanna og gera þeim erlendu fyrirtækjum sem hingað koma með hópa skylt að ráða alltaf lærða leiðsögumenn í ferðirnar. Með því að hafa ávallt faglærða leiðsögumenn í skipulögðum ferðum um landið er settur metnaður í gæðaupplifun gestanna. Við erum „exótískt“ land og í þeim dúr eigum við að taka á móti gestum.

Á síðustu vikum og misserum hefur ferðaþjónustufólk sjálft vakið athygli á svörtum sauðum sem enginn vill hafa hér. Þar er lágkúra, mannfyrirlitning og svindl og mikið um ólaunaða vinnu í trássi við lög og reglur í landinu. Samfélagið hagnast ekki á svindlurum heldur einungis svindlararnir sjálfir.

Þetta eru fyrirtæki sem ekki stunda heiðarlega samkeppni innan ferðaþjónustunnar og fleyta rjómann af því góða orðspori Íslands sem traustir aðilar hafa á löngum tíma byggt upp.

Höfundur er leiðsögumaður.

Höf.: Mörtu B. Helgadóttur