Elín Ósk Arnarsdóttir
Elín Ósk Arnarsdóttir
Eftir Elínu Ósk Arnarsdóttur: "Ef við viljum vera heilbrigð þurfum við heilbrigt umhverfi."

Og nei, þetta er ekki pistill um mataræði og hreyfingu en eflaust margir sem byrja á því að hugsa um það. Við höfum flest tekið eftir ýktum lífsstílsbreytingum hjá fólki á síðustu árum þar sem lífsstíllinn er tekinn í gegn og fólk fer á sérstakt námskeið í ræktinni, aðhyllist sérstakan matarkúr, fer í jógakennaranám og opnar jógastöð, byrjar í kraftlyftingum og lengi mætti telja. Allt þetta höfum við verið að gera vegna ákveðinnar uppgötvunar. Við höfum nefnilega áttað okkur á að við þurfum að passa mataræði, hreyfingu og svefn ef við viljum verða gömul og gráhærð. En við gleymdum einu mikilvægu atriði í þessum pælingum okkar; hvar við ætlum að verða gömul og grá. Þar af leiðandi höfum við ekki verið mjög meðvituð um að hugsa vel um jörðina okkar þó að auðvitað hafi orðið vakning í þeim málum á síðustu árum.

Við fáum þetta hins vegar allt í bakið. Hverju skiptir að vera heilsuhraust ef óstöðugt veðurfar hindrar matjurtaræktun? Þó að við getum hlaupið maraþon og lyft lóðum ráðum við ekki við náttúruhamfarir. Og ekki getum við klifið fjöll eða hjólað um í menguðu lofti. Heilbrigður lífsstíll er ekki bara matur og hreyfing heldur er sjálfbærni einn af grunnþáttunum.

Við ættum því öll að temja okkur umhverfisvænan lífsstíl. Lífsstíl sem minnkar vistspor okkar. Að minnsta kosti ef við viljum vera heilbrigð, þá þurfum við heilbrigt umhverfi. En hvað felst þá í umhverfisvænum lífsstíl? Hvað þarf að gera? Það eru ótalmargir litlir hlutir sem geta skipt miklu máli í stóra samhenginu. Það þarf bara að vera meðvitaður um þá og hafa vilja til að framkvæma þá, en það er alltaf erfitt að breyta um vana. Alveg eins og það var erfitt að skipta sjónvarpsglápi út fyrir ræktartíma. Þú getur samt hugsað að þú sért vanur/vön svona lífsstílsbreytingum og þar af leiðandi verður þetta ekkert mál!

Til að koma sér af stað er mjög gagnlegt að nota heimasíðuna graenn.is. Þar er að finna ótal ráðleggingar um litla hluti sem við getum framkvæmt. Og þegar við erum öll farin að gera litlar breytingar fer það að hafa áhrif á stóra samhengið.

Höfundur er umhverfissinni og jógakennari. elinoskarnars@gmail.com