[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Snjóleysið það sem af er vetri er farið að hafa áhrif á fyrirtæki sem sérhæfa sig í vetrarferðum upp á hálendið á jeppum eða vélsleðum, einkum sunnan- og vestanlands.

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Snjóleysið það sem af er vetri er farið að hafa áhrif á fyrirtæki sem sérhæfa sig í vetrarferðum upp á hálendið á jeppum eða vélsleðum, einkum sunnan- og vestanlands. Liggja menn á bæn og óska sér þess að það fari að snjóa. Miðað við veðurspár gæti hinum sömu orðið að ósk sinni um næstu helgi þegar spáð er kólnandi veðri og snjókomu víða um land.

Talsmenn fyrirtækja sem rætt var við í gær báru sig þó vel. Vissulega væru erlendir ferðamenn komnir til Íslands í leit að snjó, sér í lagi um miðjan vetur, en flestir hefðu skilning á aðstæðum og létu sér rigninguna og rokið nægja. Þó væru dæmi þess að ferðamenn, vonsviknir yfir snjóleysinu, hefðu beðið fyrirtæki um afslátt og jafnvel endurgreiðslu. Viðmælendur blaðsins sögðu langflesta ferðamenn fara sátta heim og láta sér hlýnun jarðar duga sem skýringu á snjólausu Íslandi.

Erfitt ár að baki í veðrinu

Tíðarfarið hefur eðli málsins samkvæmt minni áhrif haft á jöklaferðir. Þannig hefur aðsókn verið með ágætum í ísgöngin á Langjökli. Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into the Glacier, segist merkja aðeins minni aðsókn en síðasta vetur, ef allt tímabilið sé tekið með í reikninginn. Janúar fari þó mun betur af stað en í fyrra, þegar viðraði illa til ferðalaga á jökulinn í janúar og febrúar. Að sögn Sigurðar er mest sótt í ísgöngin að sumri til.

Haukur Herbertsson, skrifstofustjóri Mountaineers, segir vélsleðaferðirnir upp á Langjökul hafa haldið áætlun og eftirspurn ekki dregist saman að neinu ráði.

Snjóleysið hefur þó haft þau áhrif að ekki hefur verið hægt að leggja í sleðaferðirnar frá skála fyrirtækisins í Geldingafelli. Oftast hafa hópar ferðamanna verið sóttir að Gullfossi og verið ekið þaðan að jöklinum.

„Auðvitað er upplifunin ekki jafn skemmtileg þegar er rigning og leiðindaveður. Ferðamenn hafa væntingar um snjó á Íslandi í janúar. Síðasta ár hefur verið okkur erfitt veðurfarslega. En við berum ekki ábyrgð á veðrinu og ferðamenn skilja það yfirleitt mjög vel,“ segir Haukur.

Jeppaferðir felldar niður

Ferðaklúbburinn 4x4 hefur orðið að fella niður nokkrar ferðir í vetur vegna snjóleysisins. „Ég er ekki einu sinni búinn að taka út jeppann minn í allan vetur og væri löngu búinn að gera allt klárt ef allt væri eðlilegt,“ segir Sveinbjörn Halldórsson, formaður 4x4, en hann bindur þó vonir við að hægt verði að fara í skála félagsins, Setrið, í lok janúar til að halda árlegt þorrablót.

„Við höfum frekar viljað hætta við boðaðar ferðir en að standa í einhverju drullubrasi, við viljum miklu frekar aka á snjónum,“ segir Sveinbjörn en hann hefur heyrt nokkur dæmi þess að ferðamenn á jeppum hafi ekið utan vega á hálendinu, eins og á Kjalvegi og Sprengisandsleið, með slæmum afleiðingum.

Sveinbjörn segist varla muna eftir öðru eins tíðarfari til fjalla og nú í vetur. Nú sé snjólínan víða uppi undir þúsund metrum og það sé óvanalegt á þessum árstíma. „Greinilega eru miklar breytingar að eiga sér stað í veðurfarinu hér á norðurhveli. Menn hafa gantast með að nú sé tími kominn á að taka fellihýsin út og fara í útilegu líkt og sumar væri,“ segir Sveinbjörn, léttur í bragði.

Holdvotir í göngutúr

Snjóleysið hefur ekki farið framhjá starfsfólki í Kerlingarfjöllum. Friðrik S. Halldórsson segir tíðarfarið að undanförnu hafa verið með miklum ólíkindum. Þar sé núna marautt og ekki hægt að fara á vélsleða eða skíði. Áfram er boðið upp á gönguferðir og Friðrik segir ferðamenn gera það sér að góðu.

„Gestirnir skilja þetta vel en okkur finnst að sjálfsögðu leiðinlegt að geta ekki uppfyllt það sem búið er að lofa, að hér sé nægur snjór. Við komum úr göngutúr í dag [gær] og allir orðnir holdvotir,“ segir Friðrik en bleytan að undanförnu hefur breytt saklausum lækjum í beljandi fljót. Þannig varð að kalla til gröfu í síðustu viku til að opna leiðina um Blákvísl, sem var lokuð í eina átta tíma vegna vatnavaxta. „Allir sem eru í þessum bransa gera sitt besta til að uppfylla óskir ferðamanna en það er erfitt við að eiga þegar enginn kemur snjórinn. En við liggjum á bæn og vonum hið besta,“ segir Friðrik.

Sækja í styttri ferðir

Bílaleigan ISAK 4x4 sérhæfir sig í ferðum á breyttum jeppum en leigir einnig út óbreytta jeppa. Brynjólfur Flosason segir bílaleiguna helst finna fyrir færri bókunum en áður sem gerðar eru með skömmum fyrirvara. Hópapantanir hafi að mestu staðist þrátt fyrir snjóleysið í vetur.

Brynjólfur segir algengara að ferðamenn leigi jeppa til styttri ferða og velji sér léttari leiðir, eins og í Þórsmörk. Minna sé um lengri jeppaferðir upp á hálendið og jöklana en þar sé meira hækkandi gengi um að kenna en snjóleysi. „Annars var mikið að gera hjá okkur um jólin, enda fleiri ferðamenn þá staddir á landinu, en það hefur jafnan verið minna um að vera í janúar og febrúar.“