New York Sýning á verkum Laufeyjar hjá samstarfsaðilanum, Gallery Artifact, í New York í lok síðasta árs.
New York Sýning á verkum Laufeyjar hjá samstarfsaðilanum, Gallery Artifact, í New York í lok síðasta árs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is Laufey Johansen er alltaf á ferð og flugi, en þó líklega aldrei meira en á árinu sem leið og ef að líkum lætur einnig á þessu ári, jafnvel um ókomin ár.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Laufey Johansen er alltaf á ferð og flugi, en þó líklega aldrei meira en á árinu sem leið og ef að líkum lætur einnig á þessu ári, jafnvel um ókomin ár. Fram til þessa hafa flugferðirnar einkum helgast af því að hún er flugfreyja hjá Icelandair, en þess utan hefur listin í auknum mæli togað hana út í heim. Hennar eigin list vel að merkja; aðallega svörtu Vúlkan -málverkin, eins og hún kallar svo, en líka málverkasyrpan Undur hafsins og ein úr nýjustu syrpunni, Áróru , fékk að koma með til Miami.

„Allt í einu opnuðust bara allar dyr,“ segir listamaðurinn, sem á liðnu ári átti verk á Red dot -sýningunni á Art Basel-vikunni í Miami, listsýningu í tengslum við lúxussnekkjusýningu í Mónakó – þeirri stærstu í heimi, og sýningu með yfirskriftinni Reflection í Suður-Kóreu auk þess sem Gallery Artifact setti upp sýningu á verkum hennar í húsakynnum sínum í New York. Í ár verða verk Laufeyjar á að minnsta kosti sex sýningum vestanhafs; Los Angeles, Las Vegas, New York og San Francsisco.

Listamaður janúarmánaðar

„Og rétt í þessu var ég að fá boð um að sýna í Bókasafni Garðabæjar, sem listamaður janúarmánaðar, og verður sýningin opnuð kl. 13 á laugardaginn,“ segir Laufey brosandi.

Þess má geta að önnur sýningin í Los Angeles er í Gallery Gulla Jonsdottir Atelier þar sem Gulla, gömul skólasystir hennar, hefur fyrir margt löngu haslað sér völl sem arkitekt og hönnuður.

„Ævintýrið hófst þegar Artifact-galleríið í New York bauð mér að sýna, en sýningarstjóri í London hafði bent á mig eftir að hafa séð verkin mín á sýningunni Parallax Art Fair þar í borg fyrir tveimur árum. Síðan hefur Artifact komið mér víða á framfæri, til dæmis á snekkjusýningunni í Mónakó, þar sem ég sýndi risastórt Vúlkan-verk, 3,5 m x 2 m, og fékk fyrir vikið besta sýningarplássið, mikla athygli og boð um sérstaka kynningu á sýningunni að ári – sem er á þessu ári.“

Laufey segir Artifact-galleríið ekki vera umboðsaðila sinn, heldur samstarfsaðila, sem bjóði henni að sýna á þeirra vegum og greiði götu hennar á ýmsa lund. „Án skuldbindinga að því leytinu að ég má gera samning við önnur gallerí, eins og ég hef reyndar gert við tvö önnur, Art UpClose og Amsterdam Whitney Gallery. Fyrir tilstuðlan galleríanna hafa verk mín komist á sölusíðuna artsy.net og einnig arterynyc.com, síður sem allir fara inn á sem vilja vita hvað er að gerast í listheiminum.“

Miðlar orku frá Vúlkan

Vúlkan - verk Laufeyjar hafa vakið hvað mesta athygli í áranna rás, bæði heima og heiman, enda segir hún þau hafa verið nokkurs konar vörumerki sitt frá árinu 2007, þegar hún byrjaði að mála fyrir alvöru. „Ég var alltaf að leita að minni leið í listinni, sótti fjölda einkatíma og námskeiða, meðal annars hjá Bjarna Sigurbjörnssyni, listmálara, í Myndlistarskóla Kópavogs, sem hrinti mér svolítið fram af brúninni ef svo má segja. Allt í einu fór ég á flug. Það var eins og opinberun fyrir mig þegar ég hóf að mála þessi svörtu verk. Um svipað leyti hitti ég miðil og fræðimann sem útskýrði fyrir mér hvers vegna ég hefði verið leidd inn í listina. Hann hvatti mig til að halda áfram því verkin ættu erindi.“

Að þessu sögðu bætir Laufey við að hún geri sér grein fyrir að hún hljómi mjög skringilega þegar hún segist vera að vinna verk undir áhrifum frá plánetunni Vúlkan og miðli orku frá henni. En sú sé engu að síður raunin. Listsköpun hennar og andleg iðkun hafi runnið saman. „Ég er eins og millistykki, eða bara miðill, sem hef þessa orku sem ég tek inn í mig og miðla áfram í verkin.“

Geturðu útskýrt nánar?

„Núna fjalla vísindamenn mikið um að jörðin sé að hækka í tíðni. Ég hef verið að vinna með þetta í mörg ár, enda mikilvægt fyrir þróunina að við mannfólkið hækkum í tíðni.“

Hvað áttu við með að „hækka í tíðni“?

„Þeir sem eru að vinna á andlegu sviði eru með hærri tíðni og þar af leiðandi andlega þróaðri en aðrir og vinna líka á öðrum sviðum.“

Laufey kveðst hafa fæðst skyggn og sama eigi við um marga í fjölskyldu hennar. „Langalangafi minn var Einar H. Kvaran, mikill spíritisti og einn af stofnendum Sálarrannsóknarfélags Íslands. Ég hef verið að vinna á andlega sviðinu með móður minni í mörg ár við að beisla orku og nýta í þágu fólks. Ég lít á það sem mitt hlutverk og áskorun í lífinu að mála þessi svörtu verk, fara með þau um allan heim og gefa fólki tækifæri til að standa fyrir framan þau og verða fyrir þessum áhrifum; hækka í tíðni. Þegar maður er að vinna á andlega sviðinu þá er einfaldlega séð til þess að maður geti gert það sem maður er kallaður til að gera. Þar af leiðandi var engin tilviljun að ég hitti rétta fólkið og allar dyr stóðu mér allt í einu opnar.“

Með yfirnáttúrlegum hætti?

„Já. Svo leiðir eitt af öðru og hefur ekkert með mig að gera. Þetta snýst allt um verkin, ég fæ bara að vera með til að njóta og taka þátt. Verkin vinna sína vinnu.“

Köllun Laufeyjar er vissulega ólík þeirri köllun sem listamenn lýsa gjarnan að þeir hafi fengið, en hún kærir sig kollótta um hvers kyns vangaveltur um skringilegheit. Enda segist hún oft hafa fengið símtöl frá sýningargestum sem lýsi upplifun sinni af Vúlkan-verkunum sem heilun, sumum finnist jafnvel eins og þeir fljúgi inn í verkin, en slíkt sé einmitt merki þess að orkan hafi náð til þeirra. Henni finnst hún ekki þurfa frekari vitnanna við.

Allir litir í þeim svarta

Þótt sumir segi að plánetan Vúlkan sé einungis tilgáta er Laufey sannfærð um tilvist hennar á bak við sólina sem og orkuna sem hún gefur frá sér. „Mér fannst frekar fyndið þegar fréttamenn BBC, sem ég var einu sinni í viðtali hjá, könnuðust bara við Vúlkan vegna Spocks úr Star Trek- myndunum, en hann á að vera af blönduðum uppruna manna og Vúlkna.“

Margir spyrja Laufeyju hvers vegna hún, þessi brosandi og glaðlega kona, máli svona mikið af svörtum myndum. Hún segir að svarið sé einfalt: Það eru allir litir í svarta litnum. Hann er summa allra lita, beislar orkuna betur en aðrir litir og gerir hana öflugri. Sjálf verkin eru þykk og þung og minna á íslenskt hraun og svarta sanda – sem raunar er „óvart“ að sögn Laufeyjar, en veki þess vegna kannski meiri athygli á landi og þjóð en ella.

„Ég er sammála lýsingu Þóru Þórisdóttur listfræðings sem sagði Vúlkan-verkin mín vera frjálslegar, andlegar impressjónistamyndir,“ segir Laufey, sem er ekkert að dútla þegar hún hefst handa. Enda eru verkin ekki einungis andleg heldur líka líkamleg eins og gagnrýnendur hafa sagt. Efniviðurinn er gríðarlega mikið magn af olíu og strigi í mismunandi stærðum. „Ég veð í verkið án þess að ákveða fyrirfram hvað ég er að fara að gera. Sköpunin verður flæði þar sem ég er tengd geimnum og öðrum víddum, mála bæði hratt og þykkt af mikilli hvatvísi og oft bara með höndunum. Svipað er upp á teningnum í málverkum þar sem ég er með litaðan grunn og svart mynstur ofan á. Ég kalla þau Séð frá Vúlkan , því þau sýna eiginleika plánetna séð frá Vúlkan.“

Undur hafsins og Áróra

Vinnan við Undur hafsins er með allt öðrum og fínlegri hætti, en þá eru jörðin, náttúran og allir hinir fögru litir hafsins henni innblástur. „Dulúðin ræður ríkjum, ég laðast að því óþekkta og því sem er hulið. Ég tjái mig með andlegum hætti í málverkum mínum og leyfi þeim að vera leyndardómsfull og svolítið ævintýraleg,“ segir Laufey, sem jafnframt er að lýsa Áróru , þriðju og nýjustu málverkasyrpunni sinni, sem öfugt við Vúlkan-verkin er afar litrík. „En eins og þau svolítið „geim“,“ bætir hún við.