Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Félög sem skráð eru í Kauphöll Íslands keyptu til baka eigin bréf fyrir rúma 14 milljarða króna og greiddu arð upp á tæpa 16 milljarða árið 2018.

Hlutafélög sem skráð eru í Kauphöll Íslands keyptu til baka eigin bréf fyrir samtals 14,3 milljarða króna á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum sem Kauphöllin tók saman fyrir ViðskiptaMoggann. Í samantektinni kemur einnig fram að arðgreiðslur félaga í Kauphöll námu samtals 15,6 milljörðum króna á síðasta ári og jukust lítillega frá fyrra ári þegar þær voru 14,9 milljarðar króna.

Einnig segir í samantektinni að tryggingafélagið VÍS greiddi til viðbótar 1,8 milljarða til hluthafa með afhendingu hlutabréfa í Kviku banka. Beinar heildargreiðslur til hluthafa, þar sem reiðufé og annað er lagt saman, námu því um 17,4 milljörðum króna á árinu 2018.

Í árslok 2018 var heildarmarkaðsvirði skráðra félaga 960 milljarðar króna, og námu því kaup á eigin bréfum 1,5% af markaðsvirði félaganna í árslok. Arðgreiðslur námu hinsvegar 1,6% af markaðsvirðinu, og 1,8% ef greiðsla VÍS til hluthafa með hlutabréfum í Kviku er talin með.

Hóflegt miðað við önnur lönd

Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands, segir að kaup félaga á eigin bréfum bjóði upp á sveigjanleika. Hann segir að endurkaup eigin bréfa hér á landi sem hlutfall af markaðsvirði séu hófleg miðað við mörg önnur lönd. „Þessi íslensku félög eru mörg hver leiðandi á sínu sviði, með gott greiðsluflæði, og geta ekki nýtt allt fé til vaxtar. Þetta er til merkis um það. Þau kjósa því að láta féð renna til hluthafa með einum eða öðrum hætti.“