Theodóra Steffensen, eða Dídó eins og hún var kölluð, fæddist í Reykjavík 17. september 1928. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 27. desember 2018.

Foreldrar hennar voru Björn Steffensen endurskoðandi og Sigríður Árnadóttir Steffensen húsmóðir.

Theodóra var elst fjögurra barna Björns og Sigríðar. Hin eru Sigþrúður, sem er látin, Helga og Björn.

Hinn 20. desember 1947 giftist hún Finnbirni Þorvaldssyni, sem starfaði lengst af sem fjármálastjóri hjá Loftleiðum. Hann lést í júlí á síðasta ári, 94 ára að aldri.

Börn þeirra eru: 1) Björn, kvæntur Sigríði Aradóttur. 2) Finnbjörn, kvæntur Kathiu Rovelli. 3) Þorvaldur, kvæntur Önnu Árnadóttur. 4) Sigríður, gift Halldóri G. Hilmarssyni. 5) Gunnar Þór, kvæntur Eyrúnu Magnúsdóttur. 6) Halldóra Svala. 7) Úlfar, kvæntur Sigrúnu Hafsteinsdóttur.

Afkomendur Theodóru og Finnbjörns eru í dag 51 talsins.

Theodóra rak kvenfataverslunina Dídó ásamt vinkonu sinni Guðnýju Ámundadóttur í um 25 ár, fyrst við Hverfisgötu, svo í Kringlunni og að lokum í nokkur ár ein við Laugaveg.

Theodóra var frábær hannyrðakona.

Útför Theodóru fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Tengdamóðir mín er látin í hárri elli, aðeins hálfu ári á eftir bónda sínum.

Þau eignuðust sjö börn og minnti „amma“ Dídó mig á ungamömmu, sem breiddi vænghaf sitt yfir ungana sína. Eftir því sem fleiri bættust við, og á ég þá við tengdabörn og barnabörn, stækkaði vænghafið.

Hún var mér alltaf góð og á mjög erfiðum tíma í okkar lífi breiddi hún út sitt vænghaf og reyndi að vera sterk fyrir okkur þó að hún ætti líka um sárt að binda.

Á fullorðinsárum, búin að koma upp sínum sjö börnum, tók hún að sér son okkar, ungling sem vildi fara í skóla á Íslandi. Hún veitti honum það aðhald sem þurfti til að ljúka menntaskóla.

Nú leitar hugurinn til baka í gamlar góðar minningar.

Blessuð sé minning þín Theodóra Steffensen.

Sigríður Aradóttir (Dysta).

Elsku tengdamamma mín, mikið á ég eftir að sakna þín.

Ég hef ekki kynnst annarri eins kjarnakonu á minni lífsleið. Þú eignaðist sjö börn, rakst þitt eigið fyrirtæki, sást um heimilið, prjónaðir listavel endalaust á öll börnin, barnabörnin, barnabarnabörnin og tengdabörnin og allt virtist þetta leika í höndunum á þér og vera þér mjög létt og ánægjulegt.

Fjölskyldan var alltaf í fyrsta sæti og varst þú dugleg að heimsækja hana hvort sem var heima eða erlendis. Vinkonurnar í saumaklúbbnum voru ekki langt undan frekar en aðrir vinir sem þið ferðuðust oft með til framandi landa og nutuð lífsins.

Alltaf var safnast saman á heimili ykkar Finna á sunnudögum og var þá oft margt um manninn. Þið tókuð svo vel á móti allri fjölskyldunni og alltaf gastu töfrað fram endalausar veitingar fyrir alla. Þú varst líka listakokkur og áttir ekki langt að sækja það, því amma þín rak nokkra veitingastaði og þú heimsóttir hana stundum þangað.

Annar samkomustaður fjölskyldunnar var á kaffistofunni í kvenfataverslun þinni í Kringlunni. Alltaf varstu til í spjall og ófáa kaffibollana drakk maður þarna bæði á leiðinni að versla og líka á leiðinni heim.

Fyrir mér varst þú ekki bara tengdamóðir, því þú varst góð vinkona og var alltaf mjög gaman að tala við þig að ég tali nú ekki um að hlusta á þig segja frá einhverju sem gerðist í gamla daga eða bara hvað sem er. Þú varst mjög skemmtileg og maðurinn minn hefur án efa erft gleðina og drifkraftinn frá þér.

Ekki ætla ég að lofa þig meira þótt þú eigir það svo sannarlega skilið, þú hefðir ekki viljað það.

Vil bara þakka þér fyrir allt, elsku Dídó mín.

Þín

Sigrún.