Bjarna Sæmundssyni, rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, verður að óbreyttu lagt fyrir fullt og allt í haust. Þá mun að minnsta kosti tólf til sextán manns verða sagt upp störfum að sögn Sigurðar Guðjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar.

Bjarna Sæmundssyni, rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar, verður að óbreyttu lagt fyrir fullt og allt í haust. Þá mun að minnsta kosti tólf til sextán manns verða sagt upp störfum að sögn Sigurðar Guðjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Ástæðan er krafa um mikla hagræðingu í rekstri stofnunarinnar, sem greint hefur verið frá í Morgunblaðinu.

„Við höfum núna tekið þá ákvörðun að leggja öðru rannsóknaskipinu, Bjarna Sæmundssyni, í haust. Þá munum við leigja Árna Friðriksson til Noregs í haust í einn og hálfan mánuð,“ sagði Sigurður í samtali við 200 mílur í gær. Aðspurður segir hann að Bjarna verði þá lagt fyrir fullt og allt nema til komi einhver leiðrétting á því ástandi sem nú er uppi. Spurður hvort því muni fylgja uppsagnir, segir Sigurður að það sé óhjákvæmilegt. „Þegar við leggjum einu skipi þá er farin ein áhöfn. Og því miður er það ekki nóg, það verður sjálfsagt eitthvað að fækka í landi líka,“ sagði hann og bætti við að búið væri að tilkynna starfsmönnum að fyrirhugað væri að leggja Bjarna.

Útlit er því fyrir að ekkert íslenskt hafrannsóknaskip verði á Íslandsmiðum á eins og hálfs mánaðar tímabili í haust. „Síðan verðum við bara að keyra á einu skipi, ef þetta verður raunin.“ sh@mbl.is