Austurvöllur Nýtt hótel er að rísa.
Austurvöllur Nýtt hótel er að rísa. — Tölvumynd/THG arkitektar
Minjastofnun Íslands ákvað í fyrradag að skyndifriða þann hluta Víkurkirkjugarðs sem er innan byggingarsvæðisins á Landssímareitnum.

Minjastofnun Íslands ákvað í fyrradag að skyndifriða þann hluta Víkurkirkjugarðs sem er innan byggingarsvæðisins á Landssímareitnum. Er þetta stækkun á því svæði sem greint hafði verið frá fyrr um daginn að menntamálaráðherra hefði staðfest að fallist yrði á friðlýsingartillögu um.

Skyndifriðunin gildir í allt að sex vikur eða þar til ráðherra hefur ákveðið hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar að fenginni tillögu Minjastofnunar.

Fyrri friðlýsingin, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið tilkynnti um í fyrradag, tekur til leifa kirkju og kirkjugarðs og annarra fornminja innan lóðarmarka Víkurgarðs.

Í frétt á vef Minjastofnunar segir að gripið sé til þessara ráðstafana þar sem ljóst hafi verið af samskiptum við lóðarhafa að þeir hafi ekki haft hug á „að breyta inngangi hótelsins eins og Minjastofnun hafði lagt til og hafði ástæðu til að ætla að hefði verið samþykkt“.

Þess í stað hafi framkvæmdaraðilinn nú mögulega uppi áform um tvo innganga sem vísa að Víkurgarði og því ljóst að ætlunin sé að nýta garðinn sem aðkomusvæði hótelsins. Slíkt sé „algerlega óásættanlegt af hálfu Minjastofnunar Íslands“.

annaei@mbl.is