[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2019 Ívar Benediktsson iben@mbl.

HM 2019

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, segir það verða áskorun fyrir leikmenn sína að stefna á þriðja sætið í C-riðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik og komast þar með í milliriðlakeppni mótsins. Liðið sé enn í uppbyggingarfasa og reynslan sé ekki eins mikil og hjá mörgum öðrum liðum sem taka þátt í mótinu.

„Ég er enn með nokkra leikmenn sem ekki hafa náð 50 landsleikjum. Reynslan er ekki mikil,“ sagði Patrekur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans á dögunum þar sem Patrekur var á fullu að búa sitt lið undir þátttöku í keppninni.

Austurríki verður í riðli með Danmörku, Noregi, Túnis, Síle og Sádi-Arabíu. Leikir riðilsins fara fram í Herning á Jótlandi og fyrstu mótherjarnir á morgun, föstudag, eru lið Sádi-Arabíu.

Hörkukeppni um þriðja sætið

„Danir og Norðmenn eru með sterkustu liðin í riðlinum og síðan er Túnis talið vera með betra lið en okkar er. Fyrstu leikirnir, gegn Sádum og Síle, skipta gríðarlega miklu máli. Þá verðum við að vinna til þess að geta komist í leik við Túnis um þriðja sæti riðilsins í lokaumferðinni.

Markmiðið okkar er að ná þriðja sætinu og ég reikna með að lið Túnis og Síle horfi einnig að sama marki. Ég bý mig undir hörkukeppni,“ sagði Patrekur sem fer nú með austurríska landsliðið á stórmót í fjórða sinn. Undir hans stjórn tók austurríska landsliðið þátt í EM 2014 og á síðasta ári auk þess að vera með á HM 2015. Eftir það mót var mikil uppstokkun á leikmannahópnum og ungum leikmönnum var skipt inn á fyrir nokkra eldri sem vildu draga saman seglin.

Spurður hvort hann teldi sig ekki vera kominn með liðið svo langt í uppbyggingarferlinu að það ætti raunhæfa möguleika á að krækja í þriðja sæti riðilsins sagði Patrekur svo vera. Hinsvegar væri aldrei á vísan að róa með leikmannahóp sem ekki hefði meiri alþjóðlega keppnisreynslu.

Gekk illa að stilla spennustigið

„Það var mikil spenna í hópnum á EM fyrir ári. Nokkuð sem við náðum engan veginn að stilla af sem varð þess valdandi meðal annars að við töpuðum fyrir Hvít-Rússum í mikilvægum leik um sæti í átta liða úrslitum. Eftir umspilsleikina í júní finnst mér vera komin meiri ró og yfirvegun í hópinn sem vonandi skilar sér þegar á hólminn verður komið á heimsmeistaramótinu.

Ég er þar af leiðandi bjartsýnni á góðan árangur nú en fyrir EM á síðasta ári. Um leið geri ég mér grein fyrir brugðið getur til beggja vona. Framfarir þessa nýja liðs sem ég hef verið að móta á undanförnum þremur árum hafa verið hraðari en ég átti von á þegar ég skrifaði undir nýjan fimm ára samning við austurríska handknattleikssambandið árið 2014. Á þeim tíma átti ég ekki von á að vera inni á stórmótum í janúar 2018 og aftur 2019. Áætlunin var að fá æfingaleiki gegn sterkum liðum í janúar og nýta þá til þess að búa liðið sem best undir EM á heimavelli 2020. Markmiðið hefur þar af leiðandi breyst og við erum ekki lengur eingöngu að búa okkur undir EM 2020 á heimavelli heldur að keppa á stórmóti ár eftir ár og vera með samkeppnishæft lið í hvert sinn,“ sagði Patrekur sem hefur þjálfað austurríska landsliðið frá árinu 2011.

Óvissa með aðalmarkvörðinn

Patrekur sagði að á meðal óvissuatriða hjá sér væri hversu mikið aðalmarkvörður landsliðsins, Thomas Bauer, gæti tekið þátt í keppninni. Eiginkona Bauer er ólétt og á von á sér á þeim tíma sem heimsmeistaramótið stendur yfir.

„Ég leysi úr þessu þegar að því kemur en Bauer hefur verið aðalmarkvörður landsliðsins síðan Nikola Marinovich hætti með landsliðinu fyrir tveimur árum. Markvörðurinn Kristian Pilipovic, sem leikur með Schaffhausen í Sviss, hefur sótt í sig veðrið. Marinovich, sem leikur í dag með Wetzlar í Þýskalandi, er í 28 manna hópnum og ég get kallað í hann ef í nauðirnar rekur.“

Þá varð liðið fyrir áfalli um síðustu helgi þegar varafyrirliðinn og besti varnarmaður liðsins, Alexander Hermann, meiddist á æfingu og spilar ekki á HM.

Fyrir utan óvissuna með Bauer þá segir Patrekur markvörsluna ekki hafa verið nægilega góða hjá liði sínu um nokkurt skeið. Hún hafi verið höfuðverkur. Eins vanti upp á hjá liðinu að beita betur hraðaupphlaupum. „Það hefur íslenska liðið fram yfir okkur, svo dæmi sé tekið. Við verðum að fá nokkur mörk úr hraðaupphlaupum í hverjum leik. Þann þátt leiksins verðum við að fá í gang. Eins verðum við að forðast í meira mæli að fá á okkur hraðaupphlaup. Það er líka atriði sem hefur verið akkilesarhæll í okkar leik. Menn eru stundum ekki nóg duglegir að drífa sig til baka í vörnina eftir að hafa tapað boltanum. Í þessum þáttum erum við á eftir bestu liðunum á mótinu. En ég hef mannskapinn til þess að gera bragarbót á,“ sagði Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis í handknattleik karla.