Á flótta Rahaf Mohammed al-Qunun sést hér í fylgd með taílenskum embættismanni fyrr í vikunni.
Á flótta Rahaf Mohammed al-Qunun sést hér í fylgd með taílenskum embættismanni fyrr í vikunni. — AFP
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir í gær að Rahaf Mohammed al-Qunun teldist vera flóttamaður og bað stofnunin yfirvöld í Ástralíu um að veita henni hæli. Innanríkisráðuneyti Ástralíu staðfesti þetta í gær.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir í gær að Rahaf Mohammed al-Qunun teldist vera flóttamaður og bað stofnunin yfirvöld í Ástralíu um að veita henni hæli. Innanríkisráðuneyti Ástralíu staðfesti þetta í gær.

Qunun, sem er 18 ára kona frá Sádi-Arabíu var stöðvuð af yfirvöldum í Taílandi um helgina, en hún kom þangað frá Kúveit eftir að hafa flúið frá fjölskyldu sinni. Átti upphaflega að vísa henni úr landi aftur til Sádi-Arabíu, en Qunun sagði að fjölskylda sín hefði beitt sig andlegu og líkamlegu ofbeldi. Sagði hún að það væri „100% öruggt“ að hún yrði myrt af fjölskyldumeðlimum, yrði hún send til baka til Sádi-Arabíu.

Hún læsti sig því inni á hótelherbergi sínu og leitaði á náðir samfélagsmiðilsins Twitter. Vakti mál hennar þar mikla athygli og ýtti undir samúðarbylgju, sem varð til þess að stjórnvöld í Taílandi hættu við að senda hana til baka.

Í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Ástralíu sagði að beiðni flóttamannastofnunarinnar hefði borist til þeirra og að farið yrði yfir hana á sama hátt og öll önnur mál. Ástralskir embættismenn höfðu hins vegar gefið sterklega í skyn að hælisbeiðni Qunun yrði samþykkt. Þannig hafði Greg Hunt, heilbrigðisráðherra Ástralíu, lýst því yfir áður en ákvörðun flóttamannastofnunarinnar var ljós, að ef Qunun reyndist vera flóttamaður myndi ríkisstjórnin íhuga það mjög alvarlega að veita henni vegabréfsáritun af mannúðarástæðum.