Jóhannes Þór Skúlason
Jóhannes Þór Skúlason
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir ljóst að mörg fyrirtæki í greininni gætu átt í erfiðleikum með að standa af sér langvarandi verkföll með vorinu.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir ljóst að mörg fyrirtæki í greininni gætu átt í erfiðleikum með að standa af sér langvarandi verkföll með vorinu. Fyrirtækin séu að meta hvernig þau muni bregðast við verkföllum.

„Við getum alveg talað íslensku. Svigrúmið til launahækkana í ferðaþjónustu er líklega minna en í mörgum öðrum atvinnugreinum. Verði hér langvarandi árásir á ferðaþjónustu í heild sinni, eða á hluta hennar, gætum við horft upp á að einhver fyrirtæki leggi hreinlega upp laupana. Staðan er bara þannig. Við vonumst sem atvinnugrein til að það komi ekki til verkfalla. Við teljum að það yrði skaði fyrir samfélagið allt ef það kæmi til þess. Vonandi átta báðir aðilar við samningaborðið sig á því að svigrúm til launahækkana verður ekki aukið með slíkum aðgerðum. Það er enda lítið sem ekkert svigrúm. Þetta snýst um að skipta því sem er til skiptanna en ekki fara fram úr sér,“ segir Jóhannes Þór um svigrúmið að þessu sinni.

„Hluti verkalýðshreyfingarinnar hefur talað á þann veg að búast megi við átökum. Fyrirtækin hafa töluverðar áhyggjur af því. Víðtæk átök geta enda haft mikil áhrif. Á síðustu árum hefur ferðaþjónustan verið skotspónn slíkra aðgerða og það hefur komið fram hjá sumum í verkalýðshreyfingunni að nú sé horft til greinarinnar,“ segir Jóhannes Þór og tekur dæmi af nýjum tölum Hagstofunnar um afkomu hvalaskoðunarfyrirtækja, sem sýni að afkoma þeirra var neikvæð um 3 milljónir í fyrra fyrir fjármagnsliði.