Ólöf Áslaug Kristjánsdóttir fæddist á Siglufirði 17. janúar 1956. Hún lést á Landspítalanum 28. desember 2018.

Foreldrar hennar voru Þrúður Elísabet Guðmundsdóttir, f. 28.7. 1917 á Litlu-Borg í Húnaþingi, d. 30.1. 2002, og Kristján Sturlaugsson, f. 3.1. 1912 á Saurum í Laxárdal í Dalasýslu, d. 16.6. 1974.

Ólöf var næstyngst sjö systkina, hin eru Sigurlaug, f. 1940, Einar Janus, f. 1943, Ásta Lilja, f. 1947, d. 2.6. 2017, Elísabet, f. 1950, Sturlaugur, f. 1953, og Arndís, f. 1958.

Eiginmaður Ólafar var Sigurður Ríkharð Stefánsson, f. 17.12. 1956, d. 5.4. 2009. Hann var sonur hjónanna Fríðu Sigurðardóttur, f. 1937, og Stefáns Þórs Haraldssonar, f. 1933. Ólöf giftist Sigurði 24. júlí 1975 í Siglufjarðarkirkju. Synir þeirra eru: 1) Hákon Heimir, f. 1974, kona hans er Alda Pétursdóttir. Börn þeirra eru Rakel Rós, f. 2001, Brynjar Karl, f. 2004, og Sigurður Ríkharð, f. 2010. 2) Birgir Agnar, f. 1982, kona hans er Ágústa Þórunn Jóelsdóttir. Synir þeirra eru Kristófer Ingi, f. 2006, Óskar Máni, f. 2013, og Aron Thor, f. 2016.

Ólöf fæddist á Siglufirði og bjó þar meginhluta ævinnar. Hún starfaði við ýmis félags- og nefndarstörf, m.a. sem formaður bæjarráðs Siglufjarðar í 10 ár auk þess að sinna fjölda annarra trúnaðar- og nefndarstarfa fyrir bæinn. Síðustu árin starfaði hún á hjúkrunarheimilinu Eir.

Útför Ólafar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 10. janúar 2019, klukkan 13.

Elsku mamma, kveðjustundin kom allt of snemma.

Lífið er sannarlega hverfult.

Það var bjart yfir í lok mars þegar Brynjar fermdist, engar vísbendingar um að dökk óveðursský væru að hrannast upp. En það var sannarlega ógnarstormur í aðsigi.

Mamma var staðráðin í að standa storminn af sér en þrátt fyrir mikla og hetjulega baráttu tókst það því miður ekki.

Þegar ég minnist mömmu reikar hugurinn ósjálfrátt til æskuáranna á Siglufirði, hlýjar og notalegar minningar. Oft gestkvæmt á heimilinu og kátt á hjalla, mamma sá til þess að það var ávallt snyrtilegt, allt í röð og reglu, heitur matur í hádeginu og á kvöldin. Ég minnist glaðværðar, umhyggju og hlýju.

Það voru oft líflegar og jafnvel heitar umræður við eldhúsborðið heima, m.a. um stjórnmálin. Mamma var mikill jafnaðarmaður og sat í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn, þannig að bæjarmálin voru í brennidepli á þeim tíma. Mamma miðlaði ávallt málum af stakri ró.

Gegnum tíðina lagði ég mitt af mörkum til að skaprauna foreldrum mínum með ýmsum uppátækjum en minnist þess aldrei að mamma hafi skipt skapi eða sagt við mig styggðarorð, slík var ástin, umhyggjusemin og þolinmæðin. Þannig mun ég minnast móður minnar.

Megi hún hvíla í friði við hlið föður míns.

Hákon Heimir Sigurðsson.

Elsku mamma.

Þetta er allt saman svo óraunverulegt og sárt, aldrei hefði mig grunað að okkar kveðjustund yrði á deildinni við hliðina á þar sem pabbi dó eftir sína baráttu árið 2009.

Sem betur fer á maður fullt af góðum minningum og ýmislegt hefur verið bardúsað í gegnum tíðina. Þú kenndir mér ansi margt sem hefur og á eftir að koma sér vel í náinni framtíð.

Sárt þykir mér að hugsa til þess að þitt æviskeið sé á enda og að þú fáir ekki að njóta barnabarnanna þinna sem voru þér efst í huga öllum stundum. Stoltur er ég af þér móðir kær, betri mömmu hefði ég ekki getað hugsað mér og einnig er ég stoltur af æðruleysi þínu og baráttuvilja í gegnum þessi erfiðu veikindi. Við litla fjölskyldan stöndum þétt saman á þessum erfiðu tímum sem og alltaf eins og við ræddum um.

Minning þín mun lifa í huga okkar og hjörtum um ókomna tíð.

Elska þig mamma og sakna.

Þinn sonur

Birgir Agnar.

Elsku Lóa mín. Nú ertu farin frá okkur og eftir sitjum við með minningarnar einar en þar er af nægu að taka. Ég man hvað þú varst alltaf elskuleg við mig og hvað ég upplifði mig alltaf velkomna til ykkar. Þegar ég var eina „stelpan þín“, eftir að við Hákon byrjuðum saman, varstu alltaf að kaupa handa mér föt eða annað skemmtilegt. Ég man eitt sinn er þið Siggi fóruð til útlanda og komuð heim með hvíta boli og sokka handa Hákoni en ég fékk fallegar buxur, rúllukragapeysu og fleiri falleg föt. Þú hafðir virkilega gaman af því að fá stelpu inn í fjölskylduna og dekraðir við mig. Þetta færðist svo yfir á Rakel þegar hún fæddist og þú gast dúllað þér við að kaupa föt á hana. Ég man þegar þið fóruð tvær einar í verslunarferð í Kringluna, Rakel hefur sennilega verið um fjögurra eða fimm ára.

Svo var það sumarið þegar Hákon fór á sjóinn og ég var ein á Akureyri. Þú hringdir í mig á hverjum degi, rétt til að spjalla og að heyra hvernig ég hefði það. Passa að mér leiddist ekki.

Þegar Rakel fæddist voruð þið mætt til Akureyrar um leið og þið heyrðuð að fæðingin væri komin af stað. Svo tók við bið, endalaus bið, allan daginn, en þið létuð það ekki á ykkur fá, svo spennt voruð þið að hitta fyrsta barnabarnið ykkar. Það var yndislegt að fá ykkur strax upp á fæðingardeild enda spennan og gleðin mikil.

Svo fæddist Brynjar og þá færðist nú fjör í leikinn. Mikið fannst krökkunum gaman að busla í bölum á pallinum hjá ömmu í Miðhúsum eða fá að sprauta vatni á grasið, blómin og allt annað í garðinum. Þegar Brynjar var yngri mætti hann stundum fyrir utan hjá ömmu, gjarnan með vini, aðeins að koma í heimsókn og ósjaldan var þeim gefinn ís eða peningur fyrir ís sem þeir gátu keypt sér á bakaleiðinni. Þetta gladdi þá ávallt.

Það voru ófá tár á hvarmi þegar við tilkynntum þér nafnið á Sigga Rikka. Yngsta prinsinum okkar sem ekki fékk að kynnast föðurafa sínum. Hann er aðeins átta ára í dag svo við munum segja honum sögur af ömmu og afa frá Siglufirði til að halda minningunum á lofti fyrir hann.

Elsku, elsku Lóa mín. Þetta hafa verið erfiðir níu mánuðir og erfiðastur var desember. Ég var hjá þér helgina í apríl þegar þú fékkst greininguna og fyrir jól þegar þú fékkst lokaniðurstöður. Það hefur mikið verið grátið og erfitt að sætta sig við þetta og kveðja. Við munum minnast þín fyrir allt það jákvæða og góða, allt sem þú gerðir fyrir okkur og hvað þú elskaðir barnabörnin þín mikið og settir þau í fyrsta sætið. Þú munt lifa áfram í minningum okkar og sögum. Við elskum þig.

Þín tengdadóttir,

Alda.

Elsku Lóa.

Hér sit ég við borðið þitt og skrifa þessi minningarorð.

Það er tómlegt og finnst mér eins og þú eigir eftir að koma gangandi inn í eldhús og setjast með kaffibollann þinn og spjalla.

Söknuðurinn er mikill og kemst ég ekki hjá því að syrgja þær stundir sem ömmusnáðarnir þínir munu aldrei eiga með þér.

Ein uppáhaldsminning mín með þér er þegar þú heimsóttir okkur til Noregs, enda var það tími sem við náðum að kynnast betur og skilja hvor aðra betur. Þó að við værum ekki alltaf sammála varstu og ert enn fyrirmynd mín á mörgum sviðum og sakna ég og syrgi þann tíma sem við áttum eftir að eiga saman og tengjast enn meir.

Ég held utan um strákana þína og passa þá eins vel og ég get, elsku tengdamamma mín, og geymi minninguna um þig í hjarta mínu alla tíð.

Þín

Ágústa.

Elsku amma.

Við söknum þín og geymum þig ávallt í hjörtum okkar.

Regnbogi glitrar um himin,

þvílíkt undur sem það nú er.

Líkt og vinátta sem maður öðlast og varðveitir

um alla eilífð í hjarta sér.

Á enda hvers regnboga er gullið góða,

maður finnur það ef vel er að gáð.

Maður getur fundið slíka gersemi í vináttu,

sérstaklega ef vel í byrjun er sáð.

Þó er sú staðreynd að regnbogar dofna

og eftir verður minningin ein

um þá liti, það undur og þá fegurð

sem virtist vera svo hrein.

Vinátta getur því sannarlega dofnað,

sérstaklega ef vinur í burtu fer.

Minningar verða því einungis eftir

fyrir þann sem eftir er.

Um hlátrasköllin góðu,

þau skemmtilegu spjallkvöld,

tryggðin, trúin og traustið

og hvað gleðin tók oft öll völd.

Þó gerist oft það undur

að regnbogi birtist á ný

og vinir aftur hittast

líkt og ekkert hafi farið fyrir bí.

Því ef vonleysið mann ei gleypir,

heldur ætíð í þá trú

að regnbogi muni aftur birtast

og sá regnbogi gæti verið þú.

Það skiptir því ekki svo miklu

hvar á jarðarkringlunni maður er

því ætíð mun maður sjá aftur

regnbogann birtast sér.

Alltaf mun ég því halda

mínum kæra vin nær,

allavega í mínu hjarta,

öruggan stað þar hann fær.

(Katrín Ruth)

Ömmusnáðarnir þínir

Kristófer Ingi, Óskar Máni og Aron Thor Birgissynir.

Elsku amma okkar.

Við munum sakna þín sárt en þú munt lifa áfram í hjörtum okkar og minningum. Hvíldu í friði og kysstu nú afa frá okkur.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Kveðja frá barnabörnunum þínum,

Rakel Rós, Brynjar Karl

og Sigurður Ríkharð Hákonarbörn.

Í dag kveðjum við elskulega systur okkar Ólöfu Áslaugu frá Siglufirði sem er látin eftir erfið veikindi. Hún var sjötta í röð sjö systkina. Oft var glatt á hjalla á stóru heimili okkar við leik og störf. Við eigum eftir að sakna elsku Lóu okkar mikið. Guð blessi syni hennar, tengdadætur og barnabörnin.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)

Minning þín lifir.

Sigurlaug, Einar Janus, Elísabet, Sturlaugur, Arndís.

Það lýsti friður og kyrrð af hvítu jólaljósunum í gluggum Landspítalans, í síðasta skiptið sem ég heimsótti Lóu frænku. Vonin um bata engin, krabbinn hafði betur gegn bjartsýninni um að þetta myndi hafast. Það er skrítin tilhugsun að frænka sem hefur verið til staðar fyrir mig eins lengi og ég man eftir skuli vera horfin á braut.

Lóa frænka var sjálfstæð, eldklár og fljót að koma auga á það góða í öllum aðstæðum. Það kom vel í ljós í þessum veikindum, því hún kvartaði aldrei, ætlaði bara að ná sér af þessu og halda áfram að lifa lífinu. Það var hægt að finna það spaugilega í þessum aðstæðum, eins og öðrum og það var stutt í hláturinn, eins og venjulega.

Lóa lét að sér kveða í atvinnurekstri og bæjarpólitíkinni á Sigló árum saman. Það var sérlega þægilegt að leita til hennar varðandi ráð um sveitarstjórnarmálin, þar var hún á heimavelli, vel lesin og hokin af reynslu. Var formaður bæjarráðs lengi, í stjórn heilbrigðisstofnunar og árin sem ég var í Kennó var hún í skólamálanefnd og fyrirmælin voru skýr um að klára námið og flytja norður.

Þegar Lóa og Siggi fluttu suður, rétt eftir aldamót, með viðkomu í Mexíkó um tíma, settust þau að í Grafarvoginum. Þau fengu því miður allt of stuttan tíma saman og þessi 10 ár síðan Siggi dó hafa verið Lóu erfið.

Með söknuði kveð ég Lóu frænku og heiti því að vera til staðar fyrir hennar fólk um ókomna tíð.

Við sjáumst síðar.

Hulda Hrönn.