Fallið er frá öllum kauprétti sem samið hafði verið um áður.
Fallið er frá öllum kauprétti sem samið hafði verið um áður.
Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is Hlutur Indigo í WOW air verður 49% hið minnsta að því er fram kemur í tilkynningu til skuldabréfaeigenda WOW air.

Bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners mun eignast að minnsta kosti 49% hlut í WOW air gangi kaup þess á flugfélaginu upp. Fjárfesting Indigo verður í formi breytanlegs láns með gjalddaga eftir 10 ár. Vextir verða greiddir árlega en höfuðstóll og áunnir vextir greiðast í lok lánstíma. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu Skúla Mogensen, stofnanda og forstjóra WOW air, til skuldabréfaeigenda í gær. Sá hlutur gæti þó orðið stærri fari svo að Indigo nýti sér þann rétt að breyta lánum sínum í nýtt hlutafé á lánstímanum „í samræmi við reglur um erlent eignarhald,“ segir í tilkynningunni. Þrátt fyrir það kveða reglur EES á um að handhafar flugrekstrarleyfis innan bandalagsins séu í meirihlutaeigu aðila innan EES.

Í tilkynningu Skúla er enn fremur ítrekað að fallið verði frá öllum kauprétti sem samið hafði verið um í upphaflegu skuldabréfaútboði félagsins.

„Gangi fjárfestingin eftir mun raunveruleg fjárfestingarupphæð velta á þörf félagsins fyrir það fjármagn sem þarf til að snúa rekstri WOW við.“ Líkt og fram kom fyrir fyrir jól mun fjárfesting Indigo í WOW air nema allt að 75 milljónum bandaríkjadala, eða sem nemur 9,3 milljörðum króna. Segir Skúli jafnframt að Indigo hyggist fjármagna flugfélagið á fullnægjandi hátt í gegnum umskipti á rekstri félagsins. Segir Skúli dæmin sanna að Indigo hafi ítrekað sýnt að það sé þolinmóður fjárfestir líkt og fjárfesting þess í Wizz Air, til 14 ára, er til marks um.