Frá því hinn umdeildi forseti IHF, Alþjóðahandknattleikssambandsins, Hassan Moustafa frá Egyptalandi, kom á sérstakri keppni um Forsetabikarinn árið 2007, fyrir þær þjóðir sem kæmust ekki áfram í milliriðla eða sextán liða úrslit á heimsmeistaramóti...
Frá því hinn umdeildi forseti IHF, Alþjóðahandknattleikssambandsins, Hassan Moustafa frá Egyptalandi, kom á sérstakri keppni um Forsetabikarinn árið 2007, fyrir þær þjóðir sem kæmust ekki áfram í milliriðla eða sextán liða úrslit á heimsmeistaramóti karla, hefur sú keppni einhverra hluta vegna verið höfð í flimtingum hérlendis.

Íslenska liðið hefur aldrei þurft að taka þátt í þessari keppni, þótt hún hafi ýmist verið fyrir liðin í sætum 13-24 eða frá 17-24 á HM.

Annars vegar vegna þess að þegar keppt hefur verið með fyrirkomulagi milliriðla á HM, þ.e. 12 lið komast áfram úr undanriðlunum, hefur Ísland verið í þeim hópi. Eða hreinlega ekki með á mótinu eins og í Króatíu 2009. Þau ár hefur leikurinn um 13. sætið verið um Forsetabikarinn. Noregur, Spánn og Suður-Kórea hafa þá hreppt hann.

Hinsvegar vegna þess að þegar leikin hafa verið 16-liða úrslit, eins og 2013, 2015 og 2017, hefur Ísland komist þangað og ekki þurft að spila um 17. sætið, sem þá hefur verið leikur um Forsetabikarinn. Pólland, Tékkland og Alsír unnu hann þessi ár.

Um þennan bikar á þessu móti í Þýskalandi og Danmörku spila liðin fjögur sem enda í fjórða sæti sinna riðla. Ef Ísland nær ekki að koma sér upp á milli Spánar, Króatíu og Makedóníu í B-riðli getur það orðið hlutskipti íslenska liðsins.

Líklegir mótherjar , hin liðin sem enda í fjórða sæti sinna riðla, gætu verið Rússland, Austurríki og Egyptaland. Vonandi kemst Ísland áfram, enda er það markmið númer eitt. Takist það ekki er sigur í Forsetabikarnum næstbesti kostur. Grínlaust.