Eins og ég sagði í Vísnahorni í gær hef ég alltaf haft gaman af hestavísum.

Eins og ég sagði í Vísnahorni í gær hef ég alltaf haft gaman af hestavísum. Árni Óla segir frá því í „Hverra manna“, að Björg í Kílakoti, dóttir Sveins á Hallbjarnarstöðum, hafi átt bleikan hest og vildi helst ekki koma á bak neinum öðrum hesti, – „Bleikur var stólpagripur mikill og gammvakur og varð hann gamall vegna þess að húsfreyjunni þótti vænt um hann,“ segir þar. Um síðir varð þó að skjóta Bleik og var Björg hrygg þann dag allan. Um nóttina kom hún svo að glugga yfir rúmi Hólmfríðar systur sinnar á Víkingavatni og kvað við raust þessar vísur:

Eins og reykur fjúki um fold

fjör á leikur þræði;

húðar-Bleikur hné að mold

haltur og veikur bæði.

Aldrei hnotið hófa-mar

hafði á snotru skeiði,

en sem þrotin ævin var

í hel skotinn deyði.

Helju frá sem alla á

enginn náir snúa,

en ég fái hann aftur sjá

ekki má ég trúa.

Ellin hallar öllum leik,

ættum varla að státa,

hún mun alla eins og Bleik

eitt sinn falla láta.

Síðan segir Árni Óla að þau hafi orðið forlög síðustu vísunnar að hún kom í Ljóðmælum Páls Ólafssonar. Þeim, sem vissu um höfund hennar, þótti þetta undarlegt og spurðu Pál hverju sætti. Honum hnykkti við en gaf þá skýringu, að hann hefði kunnað vísuna lengi og sér hefði fundist andinn í henni svo svipaður sínum kveðskap að hann hefði verið farinn að halda að vísan væri eftir sig.

Vafalaust er skýringin á þessum ruglingi að hjá Páli er vísunni stungið inn í „Eftirmæli“ um hestinn Bleik og lýkur svo:

Lífs á vori mætir mér

minn sí-þorinn Bleikur,

endurborinn eins og hér

inndæl sporin leikur.

Verður glatt í muna mér

millum hnatta þeyta;

hann mun attur eins og hér

æ á brattann leita;

aldrei mæðast undir mér,

engan hræðast voða;

á slíkum gæðing gaman er

geyminn hæða að skoða.

Jón Þorsteinsson á Arnarvatni orti:

Töltir hún um tún og engjar til að bíta;

liggi tað á leiði grónu

lengist flipi á Árna-Skjónu.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is