Verkalýðsfélagið færir sig nær stjórnmálabaráttu en hagsmunabaráttu fyrir launþega

Stéttarfélagið Efling sendi í fyrradag frá sér fréttatilkynningu þar sem sagði að félagið hefði stofnað nýtt svið, félagssvið. „Hlutverk þess er fyrst og fremst að blása nýju lífi í herskáa stéttabaráttu með virkri þátttöku félagsmanna sjálfra. Ætlunin er þannig að mynda aukið mótvægi gegn síauknum yfirráðum fyrirtækjaeigenda í samfélaginu,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynning með þessu orðalagi hefði ekki komið á óvart snemma á liðinni öld, en í dag er þetta – svo vægt sé til orða tekið – tímaskekkja.

Í tilkynningunni er haft eftir formanni Eflingar, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, að verkalýðshreyfingin sé „orðin of mikil þjónustustofnun“. Félagssviðið nýja sé hugsað „til að ganga lengra í að virkja félagsmenn í baráttunni en hefur þekkst áratugum saman“. Þar er ennfremur vitnað í framkvæmdastjóra félagsins, Viðar Þorsteinsson, sem vonar að félagssviðið ryðji „braut fyrir stóreflda baráttu víðar í hreyfingunni og í samfélaginu“.

Augljóst er af þessari tilkynningu að forysta Eflingar ætlar sér allt annað og meira en að vinna að kjarabótum fyrir félagsmenn sína. Forysta Eflingar situr að völdum með stuðningi lítils minnihluta félagsmanna og hefur meðal annars af þeirri ástæðu afar veikt umboð til að gerbreyta félaginu. Þrátt fyrir þetta er hún að færa félagið yfir í almenna stjórnmálabaráttu í stað þess að einbeita sér að því sem hún á að gera, að vinna að bættum kjörum félagsmanna sinna.

Þá er það orðaval sem notað er í tilkynningu Eflingar ekki geðfellt og ekki til þess fallið að stuðla að bættum kjörum launþega. Þvert á móti lýsir það ábyrgðarleysi forystu Eflingar og skorti á tengslum við þann raunveruleika sem félagar í Eflingu og aðrir landsmenn lifa í. Ennfremur lýsir þetta skorti á skilningi á þeim veruleika sem fyrirtækin í landinu búa við og hafa búið við á síðustu mánuðum. Hvorki launamenn né fyrirtæki þurfa á „herskárri stéttabaráttu“ að halda. Enginn er betur settur með verkföllum eða hótunum um verkföll, allra síst þeir lægst launuðu hverra hagsmuna forysta Eflingar þykist sérstaklega vilja gæta.

Forysta Eflingar hefur þegar valdið miklu tjóni með framferði sínu og skaðað atvinnulíf og þar með launþega með því að láta ítrekað að því liggja að framundan séu hörð átök á vinnumarkaði. Yfirleitt finna þeir sem stýra stórum félögum og hafa áhrif á hagsmuni og afkomu mikils fjölda fólks til ábyrgðar sinnar. Þeir reyna að bæta hag þeirra sem þeir starfa fyrir og forðast að sjálfsögðu að valda tjóni. Því miður starfar núverandi forysta Eflingar eins og hún hafi einhver allt önnur markmið en að bæta kjör félagsmanna sinna og telur sig bersýnilega ekki bera nokkra ábyrgð á bættum hag þeirra eða annarra landsmanna.