Velta Arctic Adventures og Into the Glacier var 7 milljarðar árið 2018.
Velta Arctic Adventures og Into the Glacier var 7 milljarðar árið 2018.
Ferðaþjónusta Formlega var tilkynnt í gær um samkomulag ferðaþjónustufyrirtækjanna Arctic Adventures og Icelandic Tourism fund (ITF) um sameiningu Into the Glacier við fyrstnefnda félagið.

Ferðaþjónusta

Formlega var tilkynnt í gær um samkomulag ferðaþjónustufyrirtækjanna Arctic Adventures og Icelandic Tourism fund (ITF) um sameiningu Into the Glacier við fyrstnefnda félagið. Samanlögð velta þessara tveggja félaga á síðasta ári var 7 milljarðar en 300 manns starfa hjá félögunum. Ofangreind kaup eru m.a. háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Þar með staðfestist frétt Morgunblaðsins frá því á föstudag þar sem sagt var frá sameiningunni.

Í samtali við mbl.is segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures að stækkun fyrirtækisins væri nauðsynleg til að bregðast við erlendri samkeppni og það hafi skipt mestu máli auk áforma Arctic Adventures um að fara á hlutabréfamarkað. Að auki var tilkynnt um kaup Arctic Adventures á hlut ITF í fjórum ferðaþjónustufyrirtækjum en þau eru Óbyggðasetrið ehf., Raufarhólshellir ehf., Skútusiglingar ehf. á Ísafirði og Welcome Entertainment sem rekur sýninguna „Icelandic Sagas“ í Hörpu.

„Það hefur legið fyrir að sameining fyrirtækja í ferðaþjónustunni sé æskileg. Það kemur ekki síst til út af því að samkeppni afþreyingarfyrirtækja er að mestu leyti á söluhliðinni,“ segir Jón Þór. „Samkeppnisaðilar okkar eru margir og mjög stór fyrirtæki. Flest þeirra eru erlend sem vilja selja vöruna okkar fyrir nokkuð háa þóknun,“ segir Jón Þór og nefnir að um sé að ræða m.a. stór bókunarfyrirtæki. „Mörg ferðaþjónustufyrirtæki eru einfaldlega ekki nógu stór til þess að geta lagt nægilegt fjármagn í markaðssetningu sem fer nánast alfarið fram á netinu.“ peturhreins@mbl.is