Baldur Eyþórsson fæddist 8. ágúst 1940 á Kolviðarhóli, Ölfushreppi, Árnessýslu. Hann lést á líknardeild Landspítalans 1. janúar 2019.

Foreldrar hans voru hjónin Eyþór Ingibergsson, f. 1915, d. 1984, og Þórdís Sveinbjörg Jónsdóttir, f. 1914, d. 2001. Systkini Baldurs: Guðríður Karólína, f. 1942, d. 1980, Elsa, f. 1947, Ingibjörg, f. 1952, og Árni Jón, f. 1954.

Baldur kvæntist 16. janúar 1964 Jóhönnu Stefánsdóttur, f. 4. september 1936 í Sandgerði. Börn þeirra eru 1) Stefán, f. 11. nóvember 1963, sonur hans Pétur, f. 29. nóvember 1995, 2) Þórdís, f. 22. mars 1967, og 3) Ásdís, f. 24. júlí 1970.

Baldur ólst upp í Hveragerði, hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1960, fyrrihlutaprófi í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 1963 og prófi í byggingarverkfræði frá Háskólanum í Þrándheimi í Noregi árið 1965. Byggingarverkfræðingur hjá Verkfræðistofu Braga Þorsteinssonar og Eyvindar Valdimarssonar frá árinu 1965 til starfsloka.

Baldur og Jóhanna bjuggu lengst af á Seltjarnarnesi en fluttu til Reykjavíkur fyrir þremur árum.

Útför Baldurs fer fram frá Grensáskirkju í dag, 10. janúar 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Við vorum systkinabörn, hann Baldur frændi minn og ég. Baldur frændi í Hveragerði. Hann var órjúfanlegur hluti æsku minnar og björtustu bernskuminninga. Og það voru ekki bara okkar minningar sem tengdu okkur saman heldur ljúfsárar, en afar dýrmætar minningar foreldra okkar, Dísu móður hans og Ragnars föður míns sem ung voru aðskilin frostaveturinn mikla 1918 þegar Dísa, þá fjögurra ára, var send að Kolviðarhóli og faðir minn sex ára að Minni-Borg í Grímsnesi. Aldrei kom Dísa aftur heim í hlýjan móðurfaðminn og Kolviðarhóll varð heimili hennar allt til fullorðinsára. En Ingveldur amma okkar baslaði í fátækt sinni við að halda tengslunum við litlu dótturina og faðir minn minntist margra ferða þeirra mæðginanna að Kolviðarhóli. Allt þetta varð hluti af okkar sameiginlega minningasjóði. Það var svo á Kolviðarhóli sem hann Baldur frændi minn fæddist árið 1940. Hveragerði varð svo þorpið hans og þaðan á ég ótal minningar frá þeim systkinunum öllum. Oft paufuðumst við Baldur og Kaja yfir hverasvæðið í myrkrinu til þess að fara á bíó á hótelinu eða skruppum í berjamó upp á Hamarinn, og mikið dáðist ég að honum frænda mínum þegar hann fór á stökki yfir allt túnið á Friðarstöðum, á gæðingi frá Sæmundi. Hann reyndist mér líka betri en enginn þegar ég ætlaði að taka lán fyrir bíl, nýskilin og efnalítil. Faðir minn skrifaði aldrei upp á víxil, það var hans prinsipp, en þá var það Baldur sem bjargaði henni frænku sinni.

Það var gott að koma á Lindarbrautina til Baldurs og Jóhönnu, betri konu er ekki hægt að hugsa sér. Samband þeirra Dísu frænku og Jóhönnu var líka einstakt. Saman áttu þau hjónin langt og gott líf og margar ánægjustundir þegar börnin voru lítil koma upp í hugann. Þegar á ævina leið fækkaði samverustundunum eins og gengur en alltaf fór ég hamingjusöm af þeirra fundum, enda svo ótal margs að minnast.

Baldur var afar starfsamur og allt lék í höndunum á honum. Hann smíðaði, múraði, málaði, lagði pípur og rafmagn, enda vel „menntaður“ í öllu slíku frá Eyþóri föður sínum. Um það vitnar bústaðurinn þeirra í Þrastaskógi. Samheldni fjölskyldunnar var mikil og gleðigjafi þeirra hjónanna var sonarsonurinn Pétur, eina barnabarnið þeirra, hann átti sér alltaf athvarf og hvatningu hjá afa og ömmu. Í starfi sínu sem verkfræðingur var Baldur farsæll og traustur og marga góða vini átti hann frá menntaskólaárunum á Laugarvatni. Hann var hægur og yfirvegaður og skemmtilega kíminn. Hann var mjög vel gefinn, vel lesinn og ættfróður. Þegar ég rannsakaði ævi Eiríks Hjartarsonar langlangafa okkar á Rauðará sá ég alltaf Baldur frænda fyrir mér, hávaxinn, rauðbirkinn og starfsaman. Þeim fækkar nú óðum sem við deilum minningunum með, þannig er lífsins gangur. Ég sakna Baldurs frænda míns og sé hann fyrir mér þeysa á stökki inn í eilífðarlandið á vökrum gæðingi og hver veit nema hann ríði þar til móts við forföður okkar Eirík Hjartarson. Ég sendi Jóhönnu og börnum þeirra og gleðigjafanum Pétri innilegustu samúðarkveðjur og munum að það sem við grátum var gleði okkar.

Guðfinna Ragnarsdóttir.

Vorið 1960 útskrifuðust 20 glaðir stúdentar frá Menntaskólanum á Laugarvatni. Útskriftarferð þeirra var ekki til útlanda eins og nú tíðkast heldur vikulöng ferð norður og austur um land í frábæru veðri með hámarki í Atlavík í 25° hita. Þessi bekkur sem var talinn með mjög ólíka einstaklinga hefur haldið mjög vel saman. Smá saman hefur þó fækkað í hópnum og nú kveðjum við einn okkar besta félaga, Baldur Eyþórsson, sem ávallt hefur reynst traustur og góður félagi í öllu því sem bekkjarfélagarnir hafa tekið sér fyrir hendur. Hann var ávallt tillögugóður í öllum málum.

Fyrir nokkrum árum fóru sjö bekkjarfélagar ásamt mökum til Búdapest og nutum við þá ánægjulegra samvista við Baldur og Jóhönnu konu hans.

Ferðin reyndist öllum eins og önnur útskriftarferð.

Ávallt þegar Baldur hitti skólasystkini sín var eins og síðast hefði verið kvatt í gær. Hans verður sárt saknað á samfundum félaganna.

Bekkjarfélagarnir og við hjónin sendum innilegar samúðarkveðjur til Jóhönnu og fjölskyldu.

Fyrir hönd stúdenta frá ML 1960,

Valdimar Brynjólfsson.

Fallinn er frá Baldur Eyþórsson eftir stutta og snarpa baráttu við krabbamein. Hann giftist Jóhönnu móðursystur minni í janúar 1964, rúmu ári áður en hann lauk verkfræðinámi í Þrándheimi. Heimkominn hóf hann störf á Verkfræðistofu Braga og Eyvindar þar sem hann starfaði uns hann fór á eftirlaun, og sem meðeigandi hin síðari ár.

Fyrir utan sína föstu vinnu var hann einstaklega afkastamikill í frístundum, teiknaði og byggði nánast með eigin hendi glæsilegt einbýlishús við Lindarbraut. Aðstoðaði mágkonu sína og svila við byggingu sumarhúss í Trostansfirði, sem hann teiknaði einnig.

Svo fyrir um 15 árum keyptu þau hjón sér sumarbústað í Grímsnesinu þar sem hann undi sér við breytingar og stækkun þess hin síðari ár. Hann þreyttist aldrei á að vinna í garðinum við bústaðinn, reyna fyrir sér með ræktun og er árangur þess eftirtektarverður. Þar dvöldu þau oftast samfellt yfir sumarið en eyddu einnig frítíma sínum að vetri eftir því sem færi gafst.

Baldur var einnig ákaflega bókhneigður, las mikið og minnumst við þess sérstaklega hversu margar bækur þau fengu um hver jól, yfirleitt fagurbókmenntir og ævisögur. Þrátt fyrir mörg áhugamál, eins og að framan greinir, hafði hann ætíð tíma og getu til að aðstoða aðra í fjölskyldunni, var einstaklega hjálpsamur og bóngóður. Þegar litið er yfir farinn veg er sýnt að fáir hafa afkastað jafn miklu og hann á lífsleiðinni.

Við þökkum Baldri fyrir góð og löng viðkynni og kveðjum hann með söknuði. Megi minning hans lifa um aldur og ævi.

Þórunn og Finnur Torfi.