[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Guðni Bergsson , formaður KSÍ, reyndi að fá Geir Þorsteinsson , sem var formaður sambandsins frá 2007 til 2017, til þess að endurskoða þá ákvörðun sína að bjóða sig fram gegn sér í formannskjöri sambandsins.

* Guðni Bergsson , formaður KSÍ, reyndi að fá Geir Þorsteinsson , sem var formaður sambandsins frá 2007 til 2017, til þess að endurskoða þá ákvörðun sína að bjóða sig fram gegn sér í formannskjöri sambandsins. Geir staðfesti framboð sitt fyrst í útvarpsþætti fotbolti.net á X-inu á laugardag og lét Guðna vita rétt áður. „Kortéri fyrir viðtalið hringdi hann í mig og við ræddum þetta stuttlega. Ég hvatti hann til að endurskoða þessa ákvörðun og hugsa þetta betur,“ sagði Guðni við fotbolti.net í gær. Formannskjörið verður á ársþinginu 9. febrúar.

*Þýskalandsmeistarar Bayern München í knattspyrnu tilkynntu í gær að samkomulag væri í höfn við Stuttgart um kaup á franska varnarmanninum Benjamin Pavard . Pavard er 22 ára gamall og var í liði Frakka á heimsmeistaramótinu í Rússlandi síðastliðið sumar þegar þeir stóðu uppi sem sigurvegarar. Alls á hann að baki 18 landsleiki og hefur verið hjá Stuttgart síðan 2016. Pavard mun hins vegar klára tímabilið með Stuttgart og ganga í raðir Bayern í sumar og verður þá samningsbundinn félaginu næstu fimm árin.

*Rússneska karlalandsliðið í handknattleik hefur orðið fyrir miklu áfalli en Rússar mæta Serbum í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu á morgun. Pavel Atman , einn besti leikmaður Rússa, getur ekki verið með á mótinu vegna meiðsla. Leikstjórnandinn, sem leikur með þýska liðinu Hannover-Burgdorf, varð að draga sig út úr landsliðshópnum sökum meiðsla í vinstri hendinni. Atman á að baki 117 leiki með rússneska landsliðinu og hefur í þeim skorað 234 mörk.

*Belgíski landsliðsmarkvörðurinn Thibaut Courtois kemur til með að missa af næstu leikjum Evrópumeistaranna í knattspyrnu, Real Madrid. Staðfest var í gær að Courtois ætti við meiðsli að stríða í mjöðm og kæmi ekki til með að spila næstu leiki liðsins. Keylor Navas mun standa vaktina í markinu í fjarveru Courtois en mikill vandræðagangur hefur verið á liði Real Madrid. Liðið er í fimmta sæti spænsku deildarinnar og er tíu stigum á eftir toppliði Barcelona.

*Frakkinn Kylian Mbappé úr liði Paris SG er verðmætasti knattspyrnumaður heims og er 218,5 milljóna evra virði að mati rannsóknarteymisins CIES Football Observatory sem hefur reiknað út verðgildi leikmanna en aldur leikmanna, frammistaða, lið og samningsstaða hefur áhrif á virðið. Enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane úr liði Tottenham er í öðru sæti á listanum, metinn á 200,3 milljónir evra og Brasilíumaðurinn Neymar , leikmaður Paris SG, er í þriðja sæti, metinn á 197,1 milljón evra. Næstir á listanum eru Raheem Sterling, Mohamed Salah, Paulo Dybala, Lionel Messi, Romelu Lukaku, Philippe Coutinho og Leroy Sané .