Tryggvi Aðalsteinsson fæddist í Hafnarfirði 11. febrúar 1947. Hann lést á líknardeild Landspítalans 19. desember 2018.

Foreldrar hans voru hjónin Jónína Þóroddsdóttir frá Víkurgerði í Fáskrúðsfirði og Aðalsteinn Tryggvason frá Búðum.

Tryggvi átti fjögur systkini sem komust til fullorðinsára en öll eru nú látin.

Tryggvi var sjómaður frá blautu barnsbeini, verkaglaður og verkahraður í hvívetna og þótti rúm hans vel skipað. Hann missti heilsuna alltof snemma en vann samt það sem hann réð við og til féll.

Tryggvi var jarðsunginn í kyrrþey 2. janúar frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Hann Tryggvi, systursonur Hönnu konu minnar, er látinn eftir harða og langa baráttu við krabbamein, þá baráttu háði hann af karlmennsku og fengu fáir að vita í hug hans í þeim óvægna slag. Hann Tryggvi var einn þeirra hljóðlátu manna er gengu hér um götur lífsins, einlægur drengur, óáreitinn, samvizkusamur og kunni sannarlega vel til verka. Þessi hógláti drengur var með afbrigðum barngóður, börnin fundu hversu hlýtt og gjöfult hjarta hann átti, þar kom til einnig einstök gjafmildi hans, þar var Tryggvi í essinu sínu, maður sem öllum vildi gott gjöra, ef hann mögulega gat og vel það. Sjórinn var hans starfsvettvangur allt frá unglingsárum og þar var aldrei slakað á, hörkuduglegur og velvirkur að sögn þeirra er áttu með honum samleið þar. Hann var meinfyndinn og kunni vel að koma fyrir sig orði, en fálátur annars. Tryggvi átti til hins ágætasta fólks að telja í báðar ættir og naut móður sinnar og umhyggju hennar alveg sérstaklega, enda ekki í kot vísað hjá henni Jónínu, afbragðskonu að allri gerð, sem féll frá á bezta aldri og var treguð af öllum, ekki sízt Tryggva. Það voru býsna margir sem lögðu honum Tryggva lið, en fjarri honum öll vorkunnsemi í hvívetna. Tryggvi hafði yndi af góðri og fjörugri músík og á árum áður þótti hann mikill og góður dansari. Hann var alla tíð einlægur vinstrimaður, skoðanafastur vel.

Við leiðarlok kveður Hanna mín, móðursystir hans, sinn kæra frænda og þakkar fyrir margar góðar stundir í hans samfylgd fyrr og síðar. Það ber líka sérstaklega að þakka henni Allýju, Aðalheiði systurdóttur hans, sem lagði sig fram um að gera honum Tryggva lífið bærilegra, hún á þar skilið ómælda þökk frá frænku sinni. Ég nefni Árna vin hans sem gerði svo margt ágætt fyrir Tryggva, ekki sízt í veikindum hans, til dæmis með daglegum heimsóknum á spítalann. Tryggvi minn hefði sjálfsagt ekki viljað nein kveðjuorð um sig en hann átti lífsgöngu mikilla starfa, þeirra starfa sem hafa gert okkur kleift að búa svo vel hér í landi okkar, þar hafa nefnilega sjómannsstörfin verið hvað dýrmætust.

Ég kveð þennan vaska vin minn, sjómanninn dygga og dáðríka með sitt hlýja hjarta, í þökk fyrir kynni kær alla tíð. Blessuð veri minning hans.

Helgi Seljan.