Óveðrið í gær olli rafmagnsbilunum á Vestfjörðum og foktjóni. Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var búin að fá tvö útköll um klukkan 20.30 í gærkvöld. Það fyrra var vegna garðhúss sem fauk á íbúðarhús.

Óveðrið í gær olli rafmagnsbilunum á Vestfjörðum og foktjóni.

Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var búin að fá tvö útköll um klukkan 20.30 í gærkvöld. Það fyrra var vegna garðhúss sem fauk á íbúðarhús. Seinna útkallið var vegna þaks sem var að fjúka í byggðarlaginu.

Nokkrar rafmagnstruflanir urðu vegna óveðursins fyrir vestan. Bíldudalslína sló út í hádeginu í gær og var gripið til varaafls. Þá fór rafmagn af í Árneshreppi um klukkan 14.00 og var rafmagn komið aftur á þar klukkan 14.48.

Patreksfjarðarlína bilaði og sló rafmagn út á Patreksfirði og þar í kring um kl. 14.10. Gripið var til varaafls meðan bilunar var leitað. Björgunarsveitin Blakkur fór með starfsmönnum Orkubús Vestfjarða og fundust bilanir á báðum línum. Ljúka átti viðgerð fyrir miðnætti.

gudni@mbl.is