Halldór Guðmundsson fæddist 16. september 1945. Hann lést 19. desember 2018.

Útför Halldórs fór fram 4. janúar 2019.

Elsku Dóri minn, mikið var sárt að heyra af ótímabæru andláti þínu.

Okkar kynni hófust fyrir rúmlega 20 árum og gleymist aldrei sá vinskapur. Ógleymanlegar eru stundirnar sem við áttum á Fálkagötunni og í Garðastrætinu. Þar voru ítrekað öll heimsins vandamál leyst með aðstoð frá góðum vinum eins og Ómari bróður mínum og Gunnhildi vinkonu minni. Við urðum teymi sem fannst ekkert skemmtilegra en að fara út á lífið saman. Síðar héldum við öll hvert sína leið. Þið Ómar urðuð miklir mátar og var vinátta ykkar falleg og djúp. Hún hélst þangað til hann kvaddi þennan heim allt of snemma fyrir nákvæmlega fimm árum hinn 25. desember 2013 úr sama sjúkdómi og tók þig frá okkur.

Þú varst svo mikið eðalmenni í alla staði. Lagðir þig fram við að gera aðra ánægða í kringum þig. Talaðir helst aldrei um sjálfan þig, ef maður vildi vita eitthvað um þig þurfti að draga það út með töngum. Ekki vantaði húmorinn hjá þér og aldrei heyrði ég þig hallmæla nokkrum manni. Ég gat alltaf leitað til þín með mín vandamál og þú leiðbeindir mér á þinn rólega og yfirvegaða hátt og það var svo mikil mýkt í nærveru þinni. Þér fannst ég óttalegt stýri en sýndir mér alltaf skilning og virðingu. Það var svo fallegt að sjá ykkur Önnu saman, þú varst svo skotinn í henni að unun var á að horfa. Þið bjugguð ykkur fallegt heimili á Ægisíðunni og varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að koma þangað nokkrum sinnum. Ég þakka fyrir þann heiður og forréttindi að hafa átt þig að vini, elsku Dóri, og tel mig betri manneskju fyrir vikið. Mikill er missir Önnu þinnar, barna og barnabarna og ég votta þeim alla mína samúð. Eitt veit ég fyrir víst að Ómar hefur tekið á móti þér hinum megin við tjaldið með golfkerruna í eftirdragi og sagt við þig: Tökum einn hring.

Þín vinkona,

Sigrún Sveinsdóttir (Lóa).