Fótbolti Á íþróttavellinum í Sandgerði. Íþróttafélögin í Suðurnesjabæ, Reynir og Víðir, reka sameiginlega flokka í starfi með börnunum sem skapa samfélag morgundagsins.
Fótbolti Á íþróttavellinum í Sandgerði. Íþróttafélögin í Suðurnesjabæ, Reynir og Víðir, reka sameiginlega flokka í starfi með börnunum sem skapa samfélag morgundagsins. — Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Þótt stutt sé á milli Garðs og Sandgerðis hafa eðlilega hafa verið misjafnar hefðir og menning á hvorum stað.

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þótt stutt sé á milli Garðs og Sandgerðis hafa eðlilega hafa verið misjafnar hefðir og menning á hvorum stað. Sameining byggðanna í eitt sveitarfélag nær auðvitað fyrst og síðast til stjórnsýslunnar og þjónustu við íbúana. Þó er ekki síður mikilvægt að í fyllingu tímans myndist hér heildstætt samfélag með tveimur þéttbýliskjörnum sem aðeins fimm kílómetrar eru á milli,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ.

Sátt um nafn auðveldar

Það var í nóvember 2017 sem íbúar í Sandgerði og Garði samþykktu sameiningu sveitarfélaganna, sem tók svo gildi þegar ný bæjarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi tók við í kjölfar bæjarstjórnarkosninga í fyrra. Niðurstaða íbúakosninga í nóvember síðastliðnum um nafn á sveitarfélaginu var nokkuð afdráttarlaus. Alls 75% þeirra sem þátt tóku völdu nafnið Suðurnesjabær. Það nafn staðfesti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og gildir það á öllum formlegum pappírum frá og með 1. janúar síðastliðnum.

„Almenn sátt um nafnið tel ég að auðveldi öllum að sameina samfélögin hér, sem eðlilega gerist smátt og smátt. Þegar hafa til dæmis íþróttafélögin Víðir og Reynir tekið upp samvinnu með sameiginlega yngri flokka í fótboltanum og fleira sambærilegt mætti tiltaka úr öflugu félagslífi hér,“ segir Magnús sem var alþingismaður Framsóknarflokks um árabil og um hríð ráðherra. Hann var ráðinn bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Garði síðla sumars 2012 og síðasta sumar til að stýra sameinuðu sveitarfélagi.

Eftir að núverandi bæjarstjórn tók til starfa síðasta sumar var nýtt stjórnskipulag sveitarfélagsins samþykkt. Í grunninn er starfsemin þrískipt; það er stjórnsýslu-, framkvæmda- og skipulagssvið sem eru með aðstöðu í Garði og fjölskyldusvið er í Sandgerði.

Tvöfaldir innviðir

Íbúar í Suðurnesjabæ eru í dag um 3.500; um 1.640 í Garði og 1.860 í Sandgerði. Á hvorum stað eru af hálfu sveitarfélagsins til staðar flestir þeir innviðir sem þarf, svo sem sundlaugar, íþróttahús og skólar. Starf grunnskólanna verður áfram óbreytt og þeir reknir sem hverfisskólar í hvorum bæ um sig. Sama er að segja um leikskólana og nú blasir við að stækka þarf Gefnarborg í Garði. Kemur þar til jöfn og stöðug fjölgun íbúa, sem undanfarið hefur verið allt að 7% á ári.

„Íbúafjölgun hér helgast af mörgu. Bæði er þetta ungt fólk héðan af svæðinu komið með fjölskyldur sem vill skapa hér sína framtíð og einnig kemur hingað fólk frá útlöndum og sest hér að, enda næg vinna í boði. Veigamikill þáttur í þessu er svo sá að íbúðaverð hér er verulega lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Talsvert er um að fólk hafi flutt hingað; selt kannski blokkaríbúð og losað um peninga eða lækkað skuldir og keypt hér sérbýli eða raðhús,“ segir Magnús.

Hagstætt fasteignaverð tækifæri til sóknar

Algengt fermetraverð á íbúð í fjölbýlishúsi í úthverfi höfuðborgarsvæðinu er í dag um 430 þúsund krónur, en títt er að fermetrinn í sambærilegri eign suður með sjó leggi sig á um 260 þúsund. Þessi munur telur Magnús að feli í sér tækifæri til vaxtar og sóknar fyrir Suðurnesjabæ. Í bígerð sé að efna á næstu misserum til markaðsátaks hvar kostir búsetu á svæðinu verði kynntir fólki. Slíkt hefur meðal annars verið gert í Ölfusi, en á síðustu árum hefur fjöldi fólks flust í Þorlákshöfn og sækir þaðan vinnu á höfuðborgarsvæðið.

Í dag er verið að byggja nýtt íbúðarhúsnæði bæði í Sandgerði og Garði. Þá er nýtt aðalskipulag í vinnslu, en þar eru lagðar línur til langs tíma, svo sem nýtingu á Miðnesheiði sem er að stærstum hluta í eigu ríkisins og í umsjón Cateco; Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. „Við þurfum að horfa til langs tíma í skipulagsmálum, því hvarvetna í löndunum í kringum okkur eru jaðarbyggðir borganna að styrkjast, sem svo kemur fram í hærra fasteignaverði þar. Þetta sjáum við til dæmis á því að milli áranna 2017 og 2018 hækkaði fasteignamat eigna hér í Suðurnesjabæ að meðaltali um 37%. Það að svo miklar hækkanir komi fram gerist ekki oft,“ segir Magnús.

Öflug útgerð

Sjávarútvegur og þjónusta eru undirstaða atvinnu í Suðurnesjabæ. Þar eru starfrækt nokkur öflug útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, en afurðir frá sumum þeirra eru fluttar strax á vinnsludegi með flugi á markaði í útlöndum. Þar nýtur svæðið og fyrirtækin kostanna af Keflavíkurflugvelli og Leifsstöð, sem er innan Suðurnesjabæjar. Skapa fasteignagjöld þar miklar tekjur til sveitarfélagsins, sem einnig fær útsvarið frá þeim fjölda íbúa sem vinna við flugið.

Ríkið tryggi þjónustu

„Hjá sveitarfélaginu eru mörg verkefni framundan,“ segir Magnús Stefánsson. Unnið hefur verið að nokkrum verkefnum við gatnakerfi og til stendur að leggja göngu- og hjólreiðastíg milli byggðakjarnanna. Þá hafa í samvinnu við Vegagerðina staðið yfir framkvæmdir við endurbyggingu Suðurbryggju í Sandgerðishöfn.

„Þó sveitarfélagið geri, að mínu mati, vel við íbúana, þá vantar hér vissulega ýmsa þjónustu og þar stendur upp á ríkið. Hér er til dæmis ekkert apótek eða heilbrigðisþjónusta; allt slíkt þurfum við að sækja í Reykjanesbæ þar sem oft þarf að bíða lengi eftir tíma hjá læknum. Nú svo er Landsbankinn búinn að loka útibúum sínum sem hér voru og sama má segja um afgreiðslustaði Íslandspósts. Auðvitað er ekki langt að sækja þessa þjónustu alla í nágrannabæi, en fólk á misjafnlega auðvelt með að komast á milli, svo sem eldri borgarar, íbúar af erlendu bergi brotnir og ungmenni. Í allri opinberri þjónustu þarf að tryggja jafnræði meðal fólks og á þeirri kröfu munum við hamra,“ segir bæjarstjórinn að síðustu.