Einar segir að með vandlegri skráningu verði hægt að rekja galla í brettum til þess sem skaffaði hráefnið.
Einar segir að með vandlegri skráningu verði hægt að rekja galla í brettum til þess sem skaffaði hráefnið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Tandrabretti vinna að því að bæta rekjanleika til að geta aukið gæði vörubrettanna. Með því að vélvæða brettaframleiðsluna þarf ekki að eiga margar þúsundir bretta á lager.

Fyrir leikmenn líta flest vörubretti eins út, en raunin er að bretti er ekki bara bretti. Einar Birgir Kristjánsson hjá Tandrabrettum ehf. segir kaupendur hafa mismunandi þarfir, bæði hvað varðar stærðir og styrkleika bretta. „Við reynum að mæta þeim kröfum og framleiða bretti fyrir hvern og einn sem hentar hverjum kaupanda með tilliti til verðs og gæða, en beint samhengi er þar á milli,“ segir Einar.

Einar er framkvæmdastjóri Tandrabretta sem framleiða vörubretti bæði í Reykjanesbæ og í Neskaupstað og notar til þess tvær öflugar vélar frá ítalska vélaframleiðandum Storti. Fyrri vélina keypti Einar árið 2014 inn í skipaþjónustufyrirtækið Tandraberg en úr varð að gera sérstakt félag utan um brettasmíðina árið 2016 samhliða kaupum á SAH brettum ehf. Eldri Storti vélin getur framleitt 100 bretti á klukkustund eða 1,6 bretti á mínútu en sú nýrri nær að afkasta 250 brettum, eða um 4 brettum á mínútu.

„Fimm menn þarf til að manna pallettuvélarnar en timbrið kemur til okkar frá Rússlandi og hefur þegar verið skorið niður í rétta stærð svo að því má hlaða beint í magasínin á vélunum,“ útskýrir Einar.

Þarf mikil afköst á háannatíma

Tandrabretti eru eina fyrirtækið á landinu sem hefur vélvætt pallettuframleiðsluna með þessum hætti en finna má nokkur fyrirtæki og einyrkja sem handsmíða brettin. Segir Einar að með pallettuvélunum fáist meiri nákvæmni og mun meiri afköst svo að auðveldara er að anna eftirspurn á álagstímum án þess að þurfa að eiga risastóran lager. „Þegar mest er að gera hjá uppsjávarfrystihúsunum á Austfjörðum erum við kannski að afhenda um og yfir 3.000 bretti á dag og miklu hagkvæmara að geta framleitt brettin jafnóðum en að þurfa að geyma á lager tugi þúsunda bretta,“ útskýrir Einar.

Fyrirtækið annast sjálft dreifingu á brettunum en þess var þó gætt að koma stærri pallettuvélinni fyrir í næsta húsi við stærsta kaupandann; Síldarvinnsluna í Neskaupstað, svo að lítill vandi er að afhenda brettin þangað.

Næsta stóra skrefið hjá Tandrabrettum felst í því að auka gæði framleiðslunnar með meiri rekjanleika. Einar segir að timbrið sem fyrirtækið flytur inn frá Rússlandi komi frá einum seljanda en mörgum framleiðendum og geta gæðin verið misjöfn. „Það sem við vinnum núna að því að gera er að kortleggja alla framleiðsluna og halda skrá um öll frávik. Í hvert skipti sem hráefni er sótt í tiltekinn gám, frá tilteknum framleiðanda, er það skjalfest og upplýsingarnar tengdar raðnúmeri sem stimplað er á hvert bretti,“ útskýrir Einar. „Þetta þýðir að ef t.d. kaupandi verður var við galla í vörubretti þá getum við rakið slóðina og fundið út hvaðan efnið í brettinu kom.“

Að sögn Einars getur ýmislegt farið úrskeiðis hjá framleiðanda og má t.d. rekja galla til þess að fjalir hafi ekki verið framleiddar í réttri lengd eða þykkt, eða þær sagaðar úr ysta og viðkvæmasta hluta trjástofnsins. „Með rekjanleikanum getum við veitt framleiðendum markvissara aðhald og vonumst við til að eftir nokkra mánuði verði þetta nýja kerfi til þess að framleiðslugallar verða hverfandi.“