Íslenski sjávarklasinn stendur fyrir svokölluðum verkstjórafundi í húsakynnum sínum á Grandagarði 16, á morgun, föstudag. Áhersla fundarins að þessu sinni verður á áskoranir stjórnenda í fiskvinnslum.

Íslenski sjávarklasinn stendur fyrir svokölluðum verkstjórafundi í húsakynnum sínum á Grandagarði 16, á morgun, föstudag. Áhersla fundarins að þessu sinni verður á áskoranir stjórnenda í fiskvinnslum.

Kynntar verða ýmsar tækninýjungar og nýsköpun í sjávarútvegi, og farið í heimsókn í Völku, hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslu, að því er fram kemur í tilkynningu frá klasanum.

Á fundinum verða margir áhugaverðir fyrirlestrar og sérstakir gestir verða Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri HB Granda og N1, sem mun fjalla um fyrirliðann og fyrirmynd, Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri Pipar/TWA, sem mun fjalla um hvernig á að fá fólk til þess að líða vel í vinnunni og Sölvi Tryggvason, rithöfundur og fjölmiðlamaður, sem heldur erindi um hvernig almenningur horfir á fiskvinnsluna.

Efli þekkingu og styrki netið

Einnig heldur stjórnendafyrirtækið Nolta vinnustofu fyrir þátttakendur í umsjón Ylfu Edith Fenger. Fundurinn er að hluta í samstarfi við Völku og SFS, en tilgangur hans er sagður vera fyrst og fremst að hvetja til og efla samstarf á milli þeirra sem fremst standa í fiskvinnslu í landinu.

Þátttakendur fái tækifæri til að kynnast betur, efla þekkingu sína og styrkja tengslanet, auk þess sem farið sé yfir helstu áskoranir í fiskvinnslu hverju sinni og hugmyndir um hvernig bæta megi ferla og aðferðir. Þannig megi auka heildarverðmæti í sjávarútvegi með bættum vinnsluaðferðum og aukinni nýtingu sjávarafurða.